Farsælt samstarf þriggja símenntunarmiðstöðva og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands

Ingunn og Kristín frá SÍMEY og Halldór frá Farskólanum ræða við Bryndísi Lilju mannauðsstjóra HSN um…
Ingunn og Kristín frá SÍMEY og Halldór frá Farskólanum ræða við Bryndísi Lilju mannauðsstjóra HSN um fræðslumálin á fjarfundi í vikunni.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands, SÍMEY, Farskólinn og Þekkingarnet Þingeyinga hafa undanfarin ár verið í góðu samstarfi um fræðslu og starfsþróun starfsfólks HSN. Það samstarf byggði á Markviss þarfagreiningum sem unnar voru veturinn 2014-2015 á starfssvæði HSN. Vegna góðrar reynslu af því verkefni var ákveðið að framkvæma nýja þarfagreiningu og vinna nýja fræðsluáætlun sem stuðst verður við á komandi árum.

Starfsemi HSN nær frá Blönduósi í vestri til Þórshafnar í austri og því er samstarf þessara þriggja símenntunarmiðstöðva lykilþáttur í að halda vel utan um símenntun starfsmanna á víðfeðmu svæði.

Undir lok síðasta árs var lokið við nýja Markviss þarfagreiningu og uppsetningu nýrrar fræðsluáætlunar fyrir HSN. Núna á vorönn 2022 hefur verið unnið samkvæmt nýrri fræðsluáætlun, sem gildir til ársloka 2024. Í boði eru fjölbreytt námskeið fyrir starfsfólk HSN, ýmist í stað- eða rafrænni kennslu.

Verkefninu var ýtt úr vör í lok október 2020 með undirritun samnings um Fræðslustjóra að láni. Starfsmenntasjóðirnir Ríkismennt, Starfsþróunarsjóður SLFÍ og Starfsþróunarsjóður bæjarstarfsmanna hjá ríkinu styrktu verkefnið ásamt  Starfsþróunarsetri háskólamanna.

Sem framkvæmdaraðili leiddi SÍMEY verkefnið  í samstarfi við Farskólann og Þekkingarnet Þingeyinga. Af hálfu SÍMEY hafa unnið að verkefninu verkefnastjórarnir Ingunn Helga Bjarnadóttir og Kristín Björk Gunnarsdóttir.

Skipaður var stýrihópur sem í voru þrettán starfsmenn HSN af öllu starfssvæðinu sem greindi markmið verkefnisins og kom með tillögur um hvernig mætti ná þeim fram. Stýrihópurinn var áhugasamur og á fundum hópsins sem allir voru haldnir í gegnum TEAMS voru umræður gagnlegar og gáfu góðar upplýsingar sem nýttust vel við frekari vinnu og framvindu verkefnisins. Einnig voru skipaðir tveir rýnihópar til þess að meta nánar fræðsluþörf starfsfólks. Náin samvinna var jafnframt við mannauðsstjóra HSN við framkvæmd verkefnisins.

Við greiningarvinnuna voru tvær kannanir lagðar fyrir starfsfólk HSN, sem eru um 600 talsins, annars vegar viðhorfskönnun og hins vegar starfagreining. Verkefnið hefur gefið viðamiklar upplýsingar um hvað leggja ber áherslu á í fræðslumálum innan Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Næstu annir mun HSN í samvinnu við SÍMEY, Farskólann og Þekkingarnet Þingeyinga vinna að því að þjálfa og fræða starfsmenn til samræmis við þær áherslur sem birst hafa í viðhorfskönnun og þarfagreiningu meðal starfsmanna.