SÍMEY hefur fengið endurnýjaða gæðavottun til þriggja ára samkvæmt EQM+ (European Quality Mark) – Evrópska gæðamerkinu. Síðast fékk SÍMEY slíka gæðavottun í októberlok árið 2018.
Þetta evrópska gæðamerki nær til fræðsluaðila utan hins formlega skólakerfis og tekur til hönnunar og framkvæmdar náms, náms- og starfsráðgjafar fyrir fullorðna og raunfærnimats. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er vottunaraðili EQM hér á landi.
Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir að staðfesting á EQM+ sé ein af forsendum þess að SÍMEY sé viðurkennd sem vottaður fræðsluaðili og eigi aðild að Fræðslusjóði.
Sem liður í endurnýjun gæðavottunar var farið ítarlega í gegnum alla þætti í starfsemi SÍMEY og orðar Valgeir það svo að um hafi verið að ræða ítarlega sjálfsskoðun, sem hann segir að sé alltaf gagnlegt að fara í gegnum. Nauðsynlegt sé að skoða og meta það sem gert er dags daglega með gagnrýnum gleraugum, hvað sé vel gert og í hverju sé mögulegt að gera betur.
Matsaðili í þessu ferli var fyrirtæki Gunnars Gíslasonar, fyrrverandi skólafulltrúa á Akureyri, StarfsGæði ehf., en fyrir hönd Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins tekur fyrirtækið út allar símenntunarmiðstöðvar landsins vegna endurnýjunar gæðavottunar. Þessi vinna hófst í ágúst 2021 og henni lauk með formlegri staðfestingu á endurnýjun gæðavottunar í gær, 12. janúar 2022.
Valgeir segir að gæðamál séu eitt af lykilhugtökunum í starfi SÍMEY. Starfsfólk sé mjög meðvitað um þennan þátt í starfseminni enda sé hann afar mikilvægur í þeirri hröðu þróun og breytingum sem hafa orðið í allri fræðslu og framsetningu námsefnis á undanförum árum, ekki síst eftir að kóvidfaraldurinn hófst, sem kallaði á nýja hugsun og nálgun í námskeiðahaldi og kennslu.