Um Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY)
Miðstöðin er sjálfseignarstofnun sem starfar á sviði fullorðinsfræðslu með það að markmiði að efla símenntun í Eyjafirði og auka samstarf atvinnulífs og skóla til að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífs á svæðinu og bjóða einstaklingum hagnýta og fræðandi þekkingu á öllum skólastigum. Einnig að veita ráðgjöf til fyrirtækja um símenntun og einstaklingum starfs- og námsráðgjöf.
Fastráðnir starfsmenn SÍMEY í ágúst 2012 eru 13 í 10 stöðugildum en auk þess kenna fjölmargir verktakar hjá SÍMEY og vinna að fjölþættum verkefnum á vegum miðstöðvarinnar.
Framkvæmdastjóri SÍMEY er Valgeir Magnússon.
Starf SÍMEY skiptist í fjögur svið:
- Afgreiðsla og bókhald: Tekur á móti viðskiptavinum SÍMEY, sér um símsvörun, ber ábyrgð á eldhúsi og þrifum, auk margþættrar þjónustu við starfsfólk og samstarfsaðila. Sér um reikningagerð og bókhald miðstöðvarinnar.
- Hús- og tækniumsjón: Hefur umsjón með rekstri húsnæðis og tæknimálum miðstöðvarinnar.
- Verkefnastjórnun / ráðgjöf: Verkefnastjórar, náms- og starfsráðgjafar miðstöðvarinnar hafa umsjón með skipulagningu lengri og styttri námskeiða fyrir einstaklinga og atvinnulífið í samstarfi við fræðslusjóði, opinbera aðila, fyrirtæki, stofnanir og verkalýðsfélög. Ráðgjafar miðstöðvarinnar vinna að því að veita fólki á öllum aldri ráðgjöf og upplýsingar til að auðvelda ákvarðanatöku vegna náms- og starfsvals. Einnig aðstoða ráðgjafar einstaklinga við að takast á við ýmis verkefni sem tengjast námi og starfsþróun. Ráðgjafar miðstöðvarinnar veita m.a. upplýsingar um nám og störf og aðstoða við að finna námsleiðir og starfsvettvang við hæfi.
- Námsverið á Dalvík: Er útstöð frá SÍMEY, rekin í sameiningu miðstöðvarinnar og Dalvíkurbyggðar. Þar starfar verkefnastjóri, náms- og starfsráðgjafi við uppbyggingu námsversins, ráðgjöf og þjálfun, kynningu á náms- og starfsráðgjöf í fyrirtækjum, skipulagningu og umsjón með námskeiðahaldi við utanverðan Eyjafjörð, vinnu með fyrirtækjum að aukinni menntun og fagþekkingu starfsmanna auk þess sem starfsmaðurinn þar kemur að Ýmiskonar teymis- og verkefnavinnu með öðrum starfsmönnum SÍMEY.