LOFTUM er fræðsluverkefni á sviði umhverfismála, ætlað að miðla fræðslu til starfsfólks og kjörinna fulltrúa sveitarfélaganna innan SSNE. LOFTUM er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra í loftslags og umhverfismálum.
Undir formmerkjum LOFTUM eru haldin námskeið, vinnustofur og fyrirlestrar um umhverfismál, bæði á staðnum sem í fjarkennslu, á rauntíma og óháð tíma. Rafrænn skóli hefur verið settur á laggirnar með það að sjónarmiði að bjóða upp á hnitmiðað nám á mannamáli, aðlagað að þörfum ólíkra hópa innan sveitarfélaganna.
Nám getur farið fram með ýmsum hætti og það er vilji þeirra sem standa að LOFTUM að bjóða upp á fjölbreyttar leiðir til þess að ná til sem flestra. Fræðsluáætlunin gerir ráð fyrir bæði stað- og vefnámskeiðum sem og rafrænu efni sem hægt er að nálgast í LOFTUM skólanum.
Þegar kemur að því að miðla fræðslu í LOFTUM er gengið út frá því að aðlaga efni að þörfum ólíkra starfssviða sveitarfélaganna.
Árið 2022 voru Þekkingarnet Þingeyinga og SÍMEY styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra til að greina fræðsluþarfir starfsfólks og kjörinna fulltrúa innan SSNE á sviði loftlags- og umhverfismála.
Myndaður var stýrihópur sem kom að uppsetningu fræðslugreiningarinnar en hann skipuðu fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Veðurstofunni, SSNE og Landvernd ásamt kjörnum fulltrúum innan SSNE.
Niðurstaðan leiddi í ljós ákall um fræðslu og var í framhaldinu unnin fræðsluáætlun til þriggja ára.
LOFTUM verkefnið hefur það að markmiði að efla þekkingu starfsfólks sveitarfélaga, kjörinna fulltrúa og fulltrúa í fastanefndum á starfssvæði SSNE í loftlags- og umhverfismálum.
Málaflokkurinn er víðfeðmur og oft á tíðum flókinn og því er lögð áhersla á einfalda og skilvirka framsetningu upplýsinga og fræðsluefnis.
Eftirfarandi málaflokkar voru hafðir til hliðsjónar þegar kom að fræðslugreiningunni og eru jafnframt hafðir til viðmiðunar við uppsetningu fræðslu.
Samstarfsaðilar í verkefninu eru Þekkingarnet Þingeyinga og SÍMEY. Þessar tvær símenntunarmiðstöðvar halda utan um og skipuleggja þá fræðslu í umhverfis- og loftslagsmálum sem LOFTUM stendur fyrir. LOFTUM er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra og eru verkefnastjórar SSNE virkir samstarfsaðilar við framkvæmd verkefnisins