Síðastliðið haust hóf SÍMEY samstarf við Slippinn Akureyri ehf. í framhaldi af því að fyrirtækið óskaði eftir greiningu á þörf fyrir fræðslu og menntun starfsmanna fyrirtækisins og tillögum um úrbætur í ýmsum málum er lúta að samskiptum, líðan og aðbúnaði starfsmanna. Gerður var samningur um verkefnið í septemberbyrjun 2016. Slippurinn gerði jafnframt samning við Iðuna fræðslusetur, endurmenntunarsjóðinn Landsmennt og Verkstjórasamband Íslands um „Fræðslustjóra að láni“.
Ráðist var í þarfagreiningu innan Slippsins Akureyri eftir hugmyndafræði Markviss, en sú greining byggir á þörfum viðkomandi á fræðslu og öðru sem tengist uppbyggingu starfsmanna. Einnig var gerð viðhorfskönnun meðal starfsmanna og einnig farið í starfagreiningu. Stýrihópur var myndaður innan Slippsins og voru í honum sjö starfsmenn fyrirtækisins. Einnig vann Kristján Heiðar Kristjánsson mannauðs- og gæðastjóri Slippsins ötullega að verkefninu. Af hálfu SÍMEY hafa unnið að verkefninu Emil Bjarkar Björnsson, Helgi Þorbjörn Svavarsson og Ingunn Helga Bjarnadóttir.
Frá því verkefnið hófst í september sl. hafa verið haldnir fjórtán fundir, þ.m.t. fundir stýrihópsins og almennir starfsmannafundir. Lokafundur verkefnisins verður síðan haldinn að ca. hálfum mánuði liðnum. Þar er miðað við að kynna útfærða fræðsluáætlun fyrir 2017, sem ætlunin er að vinna eftir í framhaldinu.
Kristján Heiðar Kristjánsson mannauðs- og gæðastjóri Slippsins Akureyri segist afar ánægður með hvernig til hafi tekist í samstarfi við SÍMEY. „Ég er gríðarlega ánægður með samstarfið og tel að verkefnið hafi tekist mjög vel. Þegar við fórum af stað með verkefnið vorum við að leita eftir sérfræðiráðgjöf í fræðslumálum fyrir starfsmenn fyrirtækisins en síðan Slippurinn Akureyri var settur á stofn hefur ekki verið ráðist í slíkt fræðsluátak í fyrirtækinu,“ segir Kristján og upplýsir að heildarstarfsmannafjöldi Slippsins sé um 160 manns. „Það má segja að afurð þessarar vinnu frá því sl. haust sé beinagrind að fræðsluáætlun sem við ætlum okkur að byrja að vinna eftir strax núna á vorönn 2017 og við horfum til þess að eftir þessari fræðsluáætlun verði unnið til loka haustannar 2018. Fræðsluáætlunin tekur mið af óskum fólks innan fyrirtækisins en í stýrihópi verkefnisins voru fulltrúar sem komu úr mismunandi deildum þess. Það má því orða það svo að eignarhald þessa verkefnis sé í höndum starfsmannanna sjálfra. Við sjáum fyrir okkur að fræðsluáætlunin taki til um 140 af 160 starfsmönnum fyrirtækisins – þar er um að ræða starfsmenn „á gólfinu“ og millistjórnendur – þ.e. verkstjóra. Námskeiðin koma til með að verða bæði hér innan svæðisins og einnig verður leitað út fyrir athafnasvæði Slippsins,“ segir Kristján.
Hann segist hafa væntingar um að þetta fræðsluátak muni skila sér í aukinni starfsánægju og fagþekkingu innan fyrirtækisins. „Almennt vil ég segja að sú vinna sem þegar hefur farið fram er fyllilega í takti við okkar væntingar. Af hálfu stjórnenda Slippsins er mikill skilningur á því að efla fræðslu starfsmanna og veita þeim tíma til þess að afla sér aukinna þekkingar,“ segir Kristján Heiðar Kristjánsson.