„Hlutverk SÍMEY, sem staðið hefur óbreytt í mörg ár, er að efla símenntun og auka samstarf milli atvinnulífs og skóla og styrkja þannig samkeppnishæfni fyrirtækja og stofnana á svæðinu. SÍMEY stuðlar að því að einstaklingar á Eyjafjarðarsvæðinu hafi aðgang að hagnýtri þekkingu á öllum skólastigum. Samstarfsaðilar eru allir þeir sem vinna að eða bjóða upp á fræðslu, innan eða utan hefðbundinna menntastofnana, hvort sem um er að ræða starfsmenntun, tómstundanám, bóklega eða verklega fræðslu.“
Þannig komst Arna Jakobína Björnsdóttir, stjórnarformaður SÍMEY, m.a. að orði í ávarpi sínu á ársfundi SÍMEY í húsnæði miðstöðvarinnar við Þórsstíg.
Á fundinum fóru Arna Jakobína og Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, yfir helstu atriði í starfsemi SÍMEY á árinu 2016 og framtiðarsýn.
SÍMEY er nú á sínu átjánda starfsári og á þessum tíma hefur starfseminni vaxið fiskur um hrygg. Arna Jakobína sagði í ávarpi sínu að beint samband væri á milli stöðunnar á vinnumarkaði hverju sinni og sókn fólks í lengra nám. Um leið og atvinnuástandið batnaði minnkaði aðsókn í lengri námsleiðir símenntunarmiðstöðva um allt land. Um þessar mundir sagði Arna Jakobína að væri mikil spurn eftir námskeiðum og fyrirlestrum um samskipti og líðan á vinnustað, sem væri rökrétt þróun og ein birtingarmynd þeirra miklu breytinga sem íslenskt atvinnulíf hafi gengið í gegnum. „Á síðari árum er að aukast að fólk skipti um vinnu alla vega einu sinni á starfsævinni og hverfi jafnvel tímabundið af vinnumarkaði til að auka við sig menntun. Vaxandi er að fólki gefist kostur á að þróa sig áfram í starfi innan fyrirtækis og taka smám saman við stærri og meira krefjandi verkefnum þar. Að liðsinna starfsmönnum á „þeirra heimavelli“ við að auka færni sína og treysta samskiptin við samstarfsfólkið hefur farist SÍMEY einkar vel úr hendi. Það segir sína sögu að um 1.700 manns nýttu sér fyrirtækjaþjónustuna á árinu,“ sagði Arna Jakobína m.a.
Ársreikningar SÍMEY voru kynntir og bornir upp til samþykktar. Rekstrartekjur stofnunarinnar á árinu 2016 námu kr. 217,3 milljónum króna en voru kr. 203,2 millónir. árið 2015 og hafa hækkað um 6,9% á milli ára. Hagnaður ársins nam kr. 3,9 milljónum í samanburði við kr. 6,3 milljóna króna tap árið 2015. Heildareignir námu í árslok kr. 119,9 milljónum króna og eigið fé var kr. 93,0 milljónir.
Í skýrslu Valgeirs B. Magnússonar, framkvæmdastjóra SÍMEY, kom fram að á síðasta ári voru 11-12 starfsmenn hjá SÍMEY í 10 stöðugildum. Um 3.500 manns nýttu sér þjónustu SÍMEY á árinu samanborið við 3.800 árið 2015, fjöldi á námskeiðum var um 2.700 sem er ívið fleiri þátttakendur en árið á undan og náms- og starfsráðgjafarviðtöl voru 929 árið 2016 samanborið við 775 árið 2015. Þá fór 71 einstaklingur í raunfærnimat á vegum SÍMEY árið 2016 en árið 2015 voru þeir 50.
Sem fyrr var á síðasta ári yfirgnæfandi fjöldi þátttakenda á námskeiðum hjá SÍMEY konur eða 1.769 en 892 karlar.
Í lok samantektar sinnar fjallaði Valgeir framkvæmdastjóri um nokkur atriði sem verði ofarlega á baugi á þessu ári. Hann nefndi að tryggja verði sess framhaldsfræðslunnar í lögum um framhaldsfræðslu en hún hefur verið fjármögnuð í gegnum Fræðslusjóð. Valgeir segir að aukin áhersla verði lögð á náms- og starfsráðgjöf í atvinnulífinu, mannauðs- og fyrirtækjaráðgjöf og markþjálfun – auk þeirra hefðbundu verkefna sem SÍMEY hefur verið að sinna.
Ný stjórn var kjörin á ársfundinum. Í henni eru fyrir hönd opinberra stétttarfélaga Arna Jakobína Björnsdóttir, til vara Hjördís Sigursteinsdóttir, fyrir hönd fræðslustofnana Jón Már Héðinsson, til vara Eyjólfur Guðmundsson, fyrir hönd opinberra fyrirtækja Hugrún Hjörleifsdóttir, til vara Ingimar Eydal, fyrir hönd almennra stéttarfélaga Anna Júlíusdóttir, til vara Halldór Óli Kjartansson, fyrir hönd almennra fyrirtækja Sverrir Gestsson, til vara Anna María Kristinsdóttir, fyrir hönd sveitarfélaga við Eyjafjörð Axel Grettisson, til vara María Albína Tryggvadóttir, fyrir hönd Akureyrarbæjar Halla Margrét Tryggvadóttir, til vara Hlynur Már Erlingsson.