Rekstur SÍMEY á árinu 2023 var í góðu jafnvægi. Rekstrarniðurstaðan var jákvæð um 95 þúsund krónur. Rekstrartekjur á árinu voru 241,3 milljónir króna en rekstrargjöld 245,5 milljónir. Fjármagnstekjur námu 4,3 milljónum króna. Þetta kom fram á ársfundi SÍMEY í húsakynnum miðstöðvarinnar í dag.
Arna Jakobína Björnsdóttir stjórnarformaður SÍMEY setti fundinn og stjórnaði honum. Í skýrslu sinni til ársfundarins sagði hún að SÍMEY væri mikilvæg stoð í menntun m.a. fullorðins fólks og innflytjenda til að skjóta stoðum undir hæfni og færni til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.
Í ávarpinu sagði Arna Jakobína m.a.:
„SÍMEY starfar samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu og er styrkt af Fræðslusjóði til að bjóða upp á vottaðar námsleiðir á fyrsta og öðru þrepi íslenska hæfnirammans um menntun. Einnig tekur SÍMEY að sér alls konar námskeiðshald eftir þarfagreiningu innan stofnana og fyrirtækja. SÍMEY tekur þátt í erlendu samstarfi og vinnur náið með öðrum símenntunarstöðvum og fræðsluaðilum um land allt.
Árið 2023 var rekstrarlega krefjandi eins og áður. Rekstrartekjur jukust á milli ára og varð aukning á öllum sviðum, sem er jákvætt, en rekstrarkostnaður er hár hvað varðar launabreytingar og annan rekstrarkostnað fyrirtækja. Í starfsemi SÍMEY tókst að fullnýta þau verkefni er lúta að framhaldsfræðslunni og aukið fé fékkst í málaflokkinn á árinu. Fastur rekstrarsamningur við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hækkar á milli ára en þennan samning við stjórnvöld þyrfti að stækka enn frekar og að hann taki breytingum til að auðvelda framgang starfseminnar og minnka áhættu í rekstri. Vandséð er hvernig framhaldsfræðslan geti sinnt hlutverki sínu sem menntastoð á kröfuhörðum tímum nema veruleg breyting verði á umgjörð starfseminnar.
Undanfarin ár hefur verið unnið að endurskoðun laga um framhaldsfræðslu (fimmtu menntastoðina). Sú vinna þokast hægt áfram en þess er vænst að afrakstur hennar komi fram í Grænbók er greini styrkleika núverandi kerfis og skilgreini markhópa framhaldsfræðslunnar út frá menntun og stöðu á vinnumarkaði. Þessi vinna byggir ekki hvað síst á sáttmála stjórnvalda þar sem segir að „tæknibreytingar og hagnýting gervigreindar þurfa að vera í allra þágu og byggjast á grunngildum um mannréttindi, lýðræði og jöfnuð. Mikilvægt er að efla þekkingu, tryggja jöfn tækifæri og sporna gegn aðstöðumun í breyttu umhverfi. Það verður meðal annars gert með því að styðja við umbreytingar í menntakerfinu og tryggja aðgengi og möguleika allra til sí- og endurmenntunar.“
Svo mikið er víst að framhaldsfræðslan stendur frammi fyrir miklum áskorunum og hún þarf nú sem aldrei fyrr að byggja á traustum grunni. Heimurinn er margbreytilegur og hann er síkvikur. Þjóðfélagsbreytingarnar eru fyrir augum okkar á degi hverjum, á öllum sviðum þjóðlífsins. Sú tækni sem var fullgild í gær er úrelt á morgun. Menntun þarf, ef vel á að vera, að vera á undan tækniþróuninni en ekki á eftir.“
----
Á árinu 2023 voru tíu starfsmenn hjá SÍMEY í átta stöðugildum. Á árinu nýttu 2907 sér námsþjónustu SÍMEY og fjölgaði um 3-400 manns milli ára. Um 560 viðtöl í náms- og starfsráðgjöf voru á árinu, 63 voru í raunfærnimati og haldin voru 260 námskeið í samanburði við 173 á fyrra ári. Svokallaðar nemendastundir voru 56.771 en voru 46.628 á árinu 2022 og fjölgaði því um sem næst tíu þúsund á milli ára. Almennt óx starfsemin að umfangi á flestöllum sviðum á liðnu ári í samanburði við 2022. Sú niðursveifla sem fylgdi Covid-faraldrinum er að baki, starfsemi SÍMEY í fyrra var ekki ósvipuð að umfangi og árið 2019, síðasta heila árið fyrir faraldurinn.
Fjölmenning hefur vaxið mjög að umfangi í starfsemi SÍMEY og hefur hlutur íslensku sem annars máls aldrei verið meiri í sögu SÍMEY en á árinu 2023. Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY sagði á ársfundinum í dag að þörfin væri mikil og aukið fjármagn þyrfti í málaflokkinn, auka þyrfti stafrænan hluta kennslunnar og færa hana í auknum mæli út í atvinnulífið. Þá nefndi Valgeir að SÍMEY væri einnig með á sinni könnu samfélagsfræðslu fyrir fólk af erlendum uppruna í samstarfi við Vinnumálastofnun.
Allar frekari upplýsingar um starfsemi SÍMEY á síðasta almanaksári er að finna hér í ársskýrslu 2023.
Að ársfundarstörfum loknum var Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri í SÍMEY, með kynningu á íslenskuverkefninu Gefum íslensku séns, sem SÍMEY hefur tekið fyrstu skrefin í núna á vorönn. Verkefnið má rekja til Háskólaseturs Vestfjarða og stendur vilji SÍMEY til þess að kynna það og innleiða á starfssvæði miðstöðvarinnar.