SÍMEY í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga býður núna á vordögum upp á raunfærnimat fyrir fólk sem starfar í matvælagreinum – matsveina og matartækna - en hefur ekki ákveðna formlega menntun á þessu sviði. Skilyrði fyrir raunfærnimati er að hafa starfað í matvælagreinum að lágmarki í þrjú ár – og er þá miðað við fullt starf - og hafa náð 23 ára aldri.
Á hverjum einasta degi safnar fólk í sarpinn fjölbreyttri reynslu sem nýtist því í leik og starfi. Fólk byggir upp reynslu sína og þekkingu í daglegu fjölskyldulífi, starfi sínu og tómstundum. Þessi samanlagða reynsla er kölluð raunfærni og raunfærnimat því leið til þess að meta þessa færni, reynslu og þekkingu.
Raunfærnimat hefur almennt skilað afar góðum árangri og margir þátttakendur hafa í framhaldinu farið í nám eða haldið áfram námi þar sem frá var horfið. Um það eru mýmörg dæmi að raunfærnimatið getur stytt leið fólks í formlegu námi og verið hvatning til þess að ljúka því.
Hafi fólk hug á því að taka skrefið á næsta skólaári er tíminn núna til þess að fara í raunfærnimat og þá hefur fólk möguleika á að sækja um nám í matreiðslu eða matartækni næsta haust.
Raunfærnimat í matvælagreinum, eins og í öðrum iðngreinum, fer fram samkvæmt ákveðnu ferli. Fyrst er kynnt í hverju raunfærnimatið felst og síðan eiga náms- og starfsráðgjafar viðtöl við viðkomandi. Þau samtöl eru hvort sem er á staðnum eða í gegnum fjarfundabúnað, ef viðkomandi á ekki heimangengt. Þá er gerð ítarleg færnimappa, þar sem dregin er fram reynsla og þekking sem viðkomandi býr yfir. Að því loknu meta fagaðilar í matvælagreinum raunfærni þátttakenda.
Rétt er að undirstrika að raunfærnimat er ekki stöðupróf, hvorki er um verklegt né bóklegt próf að ræða, miklu frekar er með samtölum dregin fram sú þekking og reynsla sem þátttakendur búa yfir.
Frekari upplýsingar um raunfærnimatið má m.a. nálgast hér á heimasíðu SÍMEY og Kristín Björk Gunnarsdóttir (kristin@simey.is) og Kjartan Sigurðsson (kjartan@simey.is), verkefnastjórar hjá SÍMEY, eru einnig fús að veita upplýsingar.