Sextíu nemendur brautskráðust frá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar við hátíðlega athöfn í SÍMEY í gær. Jafnan er útskrifað tvisvar á ári – í lok haustannar og síðan aftur í lok vorannar.
Áður en sjálf brautskráningin hófst fluttu Þórhildur Örvarsdóttir, söngkona, og Eyþór Ingi Jónsson, organisti, tvö jólalög af nýútkomnum diski Þórhildar, sem hún einfaldlega kallar Hátíð. Þau fluttu síðan eitt lag til viðbótar af diskinum við lok brautskráningarinnar.
Sem fyrr segir brautskráðust að þessu sinni sextíu nemendur frá SÍMEY. Nám þeirra var eins og vera ber ólíkt. Nemendurnir komu af eftirtöldum brautum: „Help – Start“ - grunn og framhaldshópur, enskunám fyrir lesblinda, listasmiðja málun, listasmiðja teikning, Fræðsla í formi og lit, Skrifstofuskólinn dagnám, Skrifstofuskólinn kvöldnám og Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú.
Valgeir Blöndal Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, og Helgi Þorbjörn Svavarsson, verkefnastjóri, önnuðust brautskráninguna.
Auk brautskráningarræðu Valgeirs fluttu ávörp Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður, Magnea Karen Svavarsdóttir, einn nemendanna sem útskrifaðist úr Skrifstofuskólanum dagnámi, og Vésteinn Aðalgeirsson, sem hóf sitt nám í SÍMEY árið 2015 og var annar tveggja sem voru útnefndir í nóvember sl. til viðurkenningarinnar „Fyrirmynd í námi fullorðinna“.
Hólmkell amtsbókavörður sagðist hafa fylgst vel með þróun SÍMEY, sem á sínum tíma hafi m.a. sprottið upp úr Menntasmiðju kvenna. Ánægjulegt hafi verið að fylgjast með því mikilvæga starfi sem unnið sé í SÍMEY í því skyni að hækka menntunarstigið á svæðinu. Nefndi Hólmkell að oft væri erfitt fyrir fólk að stíga út fyrir þægindarammann í daglegu lífi og setjast á skólabekk á nýjan leik, eftir langt hlé. Það þekkti hann sjálfur, því hann hafi stigið þetta skref á liðnu hausti þegar hann hóf fjarnám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Erfiðast sé að taka ákvörðunina og stíga fyrstu skrefin, en síðan þegar yfir þröskuldinn sé komið sé ánægjan ein sem því fylgi að endurræsa hugann, ef svo megi segja. Hólmkell sagðist samfagna öllum þeim nemendur sem nú hefðu lokið góðum áfanga í SÍMEY og óskaði þeim til hamingju með daginn.
Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, sagði að með brautskráningunni væru nemendur að uppskera og dagurinn gæti líka verið dagur nýrra markmiða og væntinga. „Það getur verið mikið átak að taka upp þráðinn og hefja nám eftir hlé, það krefst dugnaðar og seiglu,“ sagði Valgeir. „Fólk þarf að endurskipuleggja líf sitt, reyna á nýja færni og stundum yfirvinna huglæga þröskulda sem geta fylgt okkur. Fyrir okkur sem vinnum á þessum vettvangi er þessi dagur líka afar mikilvægur því á honum kristallast tilgangurinn með starfi okkar, þegar við finnum, heyrum og sjáum tilganginn með þessu öllu, sjáum þær breytingar sem hafa orðið hjá ykkur. Einhvers staðar segir að það að geta haft áhrif á aðra mannskju til góðs er það mikilvægasta í lífinu. Hugtakið ævimenntun er orðið tamt í notkun í umræðu um menntamál en eins og orðið felur í sér er öflun nýrrar þekkingar og aðlögun að því hluti af lífi okkar. Þetta er breytt heimsmynd frá því fyrir einhverjum árum og áratugum, þegar fólk lauk námi upp úr 20 ára aldri eða var í sama starfi alla ævi. Þekkingarleit og öflun nýrrar reynslu á vinnumarkaði er orðin eðlileg krafa í dag. Nám hefur gjarnan mikil áhrif á sjálfsmynd einstaklinga, uppgötvun nýrra hæfileika sem maður hélt að væru ekki til staðar eða horfnir er afar jákvæð og hefur sterk áhrif á einstaklinga. Viðhorf gagnvart starfsumhvefi breytist, öryggi og viðsýni tekur völdin í huga einstaklinga. Ný tengsl myndast fólks á milli og þann þátt að læra af öðrum skal ekki vanmeta í námi. Öll eigum við okkur drauma eða við eigum að eiga okkur drauma. Ekki er óalgengt að við ýtum draumum okkar til hliðar vegna álags í persónulegu lífi eða vegna starfskrafna. Það getur verið erfitt að finna rétta tímann og erfitt að koma sér af stað. Af hverju ætti ég að vera að standa í þessu? En löngunin til að fara út fyrir þægindahringinn getur verið sterk og breytir lífi okkar. Margir taka þó ekki skrefið en það er okkar hlutverk sem stöfum á þessum vettvangi að hvetja og veita góð ráð,“ sagði Valgeir.
SÍMEY er sjálfseignarstofnun, stofnuð af samfélaginu, atvinnulífi, stéttarfélögum, skólakerfinu og sveitarfélögum. SÍMEY er hluti af samstarfsneti símenntunarmiðstöðva á landinu undir merkjum Kvasis. Á síðasta ári voru þátttakendur eða þeir sem nýttu sér þjónustu SÍMEY um 3900 manns.
Valgeir gat í ræðu sinni starfsmannabreytinga hjá SÍMEY á haustdögum. Erla Björg Guðmundsdóttir, sem var framkvæmdastjóri SÍMEY, hvarf til annarra starfa og sömuleiðis Hildur Bettý Kristjánsdóttir, verkefnastjóri. Í þeirra stað voru ráðnar til starfa Svanfríður Inga Jónasdóttir, verkefnastjóri á Dalvík, og Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri á Akureyri. Þakkaði Valgeir Erlu og Hildi fyrir afar gott starf fyrir SÍMEY og bauð þær Svanfríði og Ingunni velkomna í starfsmannahópinn.
„Verkefni okkar eru á víðum grunni, stór hluti starfseminnar er að bjóða fullorðnu fólki upp á vottaðar námsleiðir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf, almennt námskeiðahald fyrir samfélagið og einnig klæðskersniðnar lausnir fyrir fyrirtæki og stofnanir í formi námskeiðahalds og mannauðsráðgjafar, íslensku fyrir útlendinga og námskeiðahald fyrir Fjömennt, sem er fullorðinsfræðsla fyrir fatlaða. Einnig sinnum við þróunarstarfi af ýmsum toga. Framhaldsfræðslukerfið er ungt að árum á Íslandi en mikill vöxtur hefur verið innan þess á síðustu árum og er hér um að ræða fimmtu stoð menntakerfisins, reikna má að um 15.000 nemendur stundi nám innan þessa kerfis á landsvísu, til samanburðar er það um helmingur af fjölda nemenda í framhaldsskólakerfinu. Þessi hópur er afar dýrmætur fyrir samfélag og atvinnulíf, kemur með dýrmæta starfreynslu og reynslu úr sínu persónulega lífi, tvíeflist gjarnan í námi og kemur með enn dýrmætari þekkingu og reynslu út í atvinnulífið og sitt samfélag, þessi hópur er að hækka menntunarstig þjóðarinnar og er ég að tala um ykkur kæru útskriftarnemendur, þið eruð að að hækka menntunarstig þjóðarinnar og það skiptir miklu máli,“ sagði Valgeir Magnússon.