Það er kunnara en frá þurfi að segja að á síðustu árum og misserum hefur kennsla í íslensku sem öðru máli aukist að umfangi í takti við fjölgun fólks hér á landi af erlendum uppruna. Þetta á við um SÍMEY og aðrar símenntunarmiðstöðvar landsins og það sama gildir um grunn- og framhaldsskólastigið. Á árinu 2023 fékk SÍMEY styrk frá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) til þess m.a. að stilla saman strengi í kennslu íslensku sem annars máls fyrir ungmenni og fullorðna (16 ára og eldri) á öllu starfssvæði SSNE, mynda samráðsvettvang um íslenskukennslu fyrir fólk af erlendum uppruna á svæðinu og fara ofan í saumana á skipulagi og aðgengi námsins. Samstarfsaðilar SÍMEY í þessu verkefni voru Þekkingarnet Þingeyinga, Háskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri.
Fyrsti hluti verkefnisins var að kortleggja umfang kennslu í íslensku sem öðru máli fyrir fullorðna á starfssvæði SSNE en þar koma við sögu símenntunarmiðstöðvarnar tvær, SÍMEY og Þekkingarnet Þingeyinga, framhaldsskólarnir fimm á svæðinu og Háskólinn á Akureyri. Fjallað var um íslenskukennslu sem tæki mið af Evrópska tungumálarammanum, almenna og sértæka ráðgjöf fyrir ólíka markhópa og kennsluefni.
Skýrt kom fram að ákveðin gjá væri í framboði íslenskukennslu frá grunnkennslu (A1-A2) og upp í færni á háskólastig (C1-C2), sem að hluta væri brúuð með námsframboði símenntunarmiðstöðvanna og framhaldsskólanna en gera þyrfti mun betur í þessum efnum. Almennt skorti á heildarmyndina þar sem ferill nemenda væri varðaður frá grunnstigi og upp í að geta sótt nám á háskólastigi eða sótt um störf þar sem góðrar íslenskukunnáttu er krafist. Þá kom fram að fræðsluaðilar á svæðinu styðjast við grunnnámsefnið „Íslenska fyrir alla“, sem á margan hátt er barn síns tíma og hentar ekki öllum. Einnig að fáir kennarar hafi sérhæft sig í kennslu íslensku sem öðru máli og enn færri með séráherslu á fullorðna námsmenn.
Í þessu verkefni hefur einnig verið rætt um hvernig bregðast megi við þörfum dreifðari byggða með íslenskukennslu, hvernig unnt sé að koma á framfæri hvaða þjónusta sé í boði, flæði milli stofnana og sérhæfingu kennara. Í þeim efnum er einkum horft til þess hvernig Háskólinn á Akureyri gæti stigið inn í og boðið upp á nám, námskeið og/eða vinnustofur fyrir kennara.
Almennt gekk þetta verkefni vel og var á allan hátt mjög þarft, enda hefur það ýtt úr vör samtali og samráði þeirra stofnana sem koma að íslenskukennslu á starfssvæði SSNE. Í dag heyra þessar stofnanir undir þrjú ráðuneyti, þær vinna í ólíkum kerfum og eðli málsins samkvæmt í mismunandi námskrám. Kerfið er því almennt nokkuð flókið og brýnt er að gera það einfaldara og aðgengilegra fyrir notendur. Þátttakendur í verkefninu voru sammála um að vinna út frá Evrópska tungumálarammanum sem samræmdri mælistiku, óháð námskeiðum, áföngum og brautum.
Samandregið voru helstu niðurstöður úr verkefninu þessar:
Myndrænt yfirlit
Mikilvægt er að aðgengilegt sé yfirlit yfir íslenskunám sem og aðra þjónustu er lýtur að innflytjendum á starfssvæði SSNE. Þá er horft til myndrænnar uppsetningar þar sem sveitarfélögin, aðilar sem sinna ráðgjöf og/eða taka á móti innflytjendum sem og innflytjendurnir sjálfir geti áttað sig á hvað er í boði á hverjum stað og hvernig þeir geti aflað sér frekari upplýsinga.
Sérhæfing fyrir kennara
Efla verður námskeiðahald/nám fyrir kennara í kennslu íslensku sem annars máls. Í þessu sambandi er horft til Háskólans á Akureyri. SÍMEY hefur á síðustu misserum átt í góðu samstarfi við Studieskolen í Kaupmannahöfn, m.a. um nám í tungumálamarkþjálfun fyrir verkefnastjóra og kennara í íslensku sem öðru máli og er stefnt að því að halda námskeið um bekkjar-markþjálfun (classroom coaching) næsta haust, sem verði einkum ætlað tungumálakennurum.
Aðgengi í dreifðari byggðum
Mikilvægt er að greiða leið innflytjenda sem búa í dreifðari byggðum að íslenskunámi. Í fámennari byggðarlögum næst oft ekki í nógu stóra hópa til að halda staðnámskeið og því er mikilvægt að tryggja framboð fjarnámskeiða. Þekkingarnet Þingeyinga og SÍMEY hafa bætt þessa þjónustu til muna á undanförnum árum en framboðið þyrfti að vera enn meira, t.d. hefur hvorug miðstöðin boðið upp á byrjendanámskeið í fjarnámi. Fjarnámskeið SÍMEY eru einkum hugsuð til að efla samtalstækni og eru oft sniðin að ákveðnum málhópum. Einnig er boðið upp á námskeið fyrir lengra komna (B1/B2) með áherslu á orðaforða og málfræði. Á framhaldsskólastiginu er mikilvægt að horfa til þess hvernig er hægt að efla ungmenni sem eru innflytjendur eða með erlendan bakgrunn. Í því samhengi þarf að skoða samstarf milli skólanna.
Áframhaldandi samtal
Þátttakendur í verkefninu voru sammála um mikilvægi áframhaldandi samstarfs í því skyni að brúa það bil sem er núna til staðar í íslenskukennslunni, stilla saman strengina og deila hugmyndum þeirra sem vinna að þessum málum. Rætt var um að efna til ráðstefna, máþinga og/eða vinnustofa í því skyni að efla íslenskukennsluna á einn eða annan hátt.