Í gær lauk fjórði hópurinn námi í markþjálfun í SÍMEY. Níu luku náminu að þesu sinni og fengu viðurkenningaskjöl því til staðfestingar.
Haustið 2015 var fyrsta slíka námskeiðið haldið á Akureyri sem var jafnframt fyrsta markþjálfanámskeiðið utan Reykjavíkur.
Árið 2004 settti Matilda Gregersdotter, sem heldur utan um námið, á stofn fyrirtækið „Leiðtoga“ sem síðar breyttist í Evolvia ehf. og hefur það á sínum snærum markþjálfanám hér á landi. Evolvia hefur ACSTH vottun frá International Coach Federation sem þýðir að ACC markþjálfanám og framhaldsnám í markþjálfun hjá Evolvia er viðurkennt og uppfyllir öll skilyrði og kröfur ICF (International Coach Federation). Námið í SÍMEY er grunnnám í markþjálfun, svokallað ACC markþjálfanám.
Markþjálfun má í stuttu máli lýsa sem samtalsaðferð þar sem einstaklingurinn lærir m.a. ýmislegt um sjálfan sig, varðandi lífið sjálft og starf hvers og eins.
Næsta námskeið í markþjálfun verður í SÍMEY í haust. Sjá hér.
Í hópi þeirra nemenda sem luku námi í markþjálfun í SÍMEY í gær voru Ingiríður (Inga) Ásta Karlsdóttir, þjónustustjóri í fyrirtækjamálum í Landsbankanum á Akureyri, og Axel Ernir Viðarsson, slökkviliðsmaður í Slökkviliði Akureyrar. Þau voru mjög ánægð með námið og segja öllum hollt að fara í það:
Inga: Ég þekki nokkra markþjálfa og hafði sjálf farið til þeirra. Aðferðafræðin sem þetta byggir á þykir mér mjög áhugaverð og auk þess hafði ég lært jákvæða sálfræði og hluti af því námi var að fá innsýn í markþjálfun. Mér fannst þetta því tengjast vel og vera spennandi, þess vegna ákvað ég að slá til.
Axel Ernir: Ég tek undir það sem Inga segir að ég þekki nokkra sem höfðu tekið markþjálfun og undantekningalaust mæltu þeir eindregið með þessu námi. Að endingu ákvað ég að slá til og sé svo sannarlega ekki eftir því. Námið felst að töluverðu leyti í því að fara inn á við og það veitir góða sýn á svo fjölmargt. Maður fer að horfa öðruvísi á hlutina og mér finnst þetta nám stuðla að bættum samskiptum. Almennt vil ég segja að námið var gríðarlega skemmtilegt og lærdómsríkt fyrir alla.
Inga: Ég tel að sú aðferðafræði sem markþjálfun byggir á styrki alla. Markþjálfun er frábær í verkfærakistu stjórnenda en tvímælalaust nýtist hún öllum vel. Maður fer mikið inn á við og skoðar sjálfan sig og við erum látin fara djúpt í tilfinningar og upplifanir og finna neistann í sjálfum okkur til þess að fara þangað sem okkur langar að fara. Í mínum huga er þetta aðferðafræði sem hjálpar fólki til að finna neistann sinn.
Axel Ernir: Margir fara í þetta nám til þess að vinna sem markþjálfar í framtíðinni en aðrir fara í námið til þess að efla sjálfsöryggi og þetta er tvímælalaust góð leið til þess. Sjálfur hafði ég alltaf hugsað mér að vinna sem markþjálfi til hliðar við mitt starf sem slökkviliðsmaður, með það í huga að hjálpa fólki að bæta líf sitt og ná árangri.
Inga: Ég fór í námið fyrst og fremst með það í huga að tileinka mér þessa aðferðafræði. Ég hafði ekki í huga að starfa sem markþjálfi. En því meira sem ég hef lært í þessu því meiri áhuga hef ég á að stunda markþjálfun með vinnu. Það er mjög gefandi þegar manni tekst að hjálpa fólki að kveikja neistann og sjá hlutina gerast.
Axel Ernir: Námið er töluvert viðameira og gefur manni enn meira en ég átti von á. Það veitir nýja sýn og bætir færni á mörgum sviðum. Fyrirfram átti ég von á að námið myndi gefa mér umtalsvert en það hefur gefið mér margfalt meira en ég átti von á. Það er einfaldlega ein besta ákvörðun sem ég hef tekið að fara í þetta nám. Þetta er vissulega krefjandi og okkur var sagt að við skyldum taka frá kvöldin þá daga sem væri kennt því við myndum klára alla okkar orku. Það reyndist alveg rétt. Það fer mikil orka í að gefa svona mikið af sér en það var margfaldlega þess virði.
Inga: Með þessu námi erum við í raun orðin markþjálfar en til þess að fá svokallaða ACC-vottun þurfum við að safna 100 klukkutímum í að markþjálfa aðra og það hef ég fullan hug á að gera.
Axel Ernir: Ég tek undir að ég hef fullan hug á að safna þessum tímum og fá ACC-vottun. Hver og einn getur gert þetta á sínum hraða, það eru engin tímamörk á því hvenær fólk þarf að ljúka tilskildum tímafjölda til þess að fá vottun.