Reynslan af endurmenntunarnámskeiðum atvinnubílstjóra, sem hófust í febrúar sl., hefur almennt verið mjög góð. Námskeiðin eru haldin í SÍMEY í samstarfi við ökuskólann Ekil á Akureyri. Hvert námskeið hefur verið metið af þátttakendum og er ekki hægt að segja annað en að námsmatið skori bærilega hátt.
Eins og fram hefur komið byggja endurmenntunarnámskeið atvinnubílstjóra á Evróputilskipun sem Ísland á aðild að á hinu Evrópska efnahagssvæði. Námskeiðin taka til atvinnubílstjóra sem aka bifreiðum í flokkum D1 og D til farþegaflutninga í atvinnuskyni og í flokkum C1 og C til vöruflutninga í atvinnuskyni.
Þeim atvinnubílstjórum sem öðluðust ökuréttindi sín í framangreindum flokkum fyrir 10. september 2013 er skylt að hafa lokið fimm endurmenntunarnámskeiðum fyrir 10. september 2018 – eða eigi síðar en fimm árum frá gildistöku ökuskírteinis til ökuréttinda í þessum flokkum – til þess að fá ökuskírteini sín endurnýjuð.
Almennt gildir nú sú regla að atvinnubílstjórar þurfa að hafa lokið fimm endurmenntunarnámskeiðum – samtals 35 kennslustundum - eigi síðar en fimm árum frá gildistöku ökuskírteina til aukinna ökuréttinda.
Sjö mismunandi námskeið hafa verið kennd; skyndihjálp - aðkoma að slysavettvangi, fagmennska og mannlegi þátturinn, farþegaflutningar, lög og reglur, umferðaröryggi og bíltækni, vistakstur - öryggi í akstri og vöruflutningar. Í það heila hafa þegar verið haldin 27 námskeið og heildarfjöldi þátttakenda er um 90 manns. Margir hafa tekið fleiri en eitt námskeið.
Hver þátttakandi á námskeiðunum hefur gefið þeim umsögn og einkunn og út frá einkunnum allra þátttakenda hefur verið reiknuð heildareinkunn fyrir námskeiðin. Almennt hafa þau skorað hátt, eini þátturinn sem gefur almennt fengið lægri einkunn en aðrir er lengd námskeiðanna. Áskilið er að hvert námskeið skuli vera sjö klukkustundir samtals - þ.e. kennsla og matar- og kaffitímar. Greinilegt er á námsmati þátttakenda að mörgum þykja námskeiðin óþarflega löng.
Grétar Viðarsson, ökukennari hjá Ekli, sem er einn kennaranna á námskeiðunum í SÍMEY, segist ekki geta verið annað en ánægður með þau námskeið sem þegar sé lokið. "Ég er mjög ánægður með hvernig þetta hefur farið af stað og mat á námskeiðunum er almennt mjög jákvætt, þó svo auðvitað séu alltaf einhver atriði sem menn eru misjafnlega sáttir við. En ég upplifi og veit að margir telja sig hafa fengið töluvert út úr námskeiðunum, fengið nýjar upplýsingar og bætt þannig við þekkingarbankann. Ég finn að þátttakendur hafa verið sérstaklega ánægðir með nálgun okkar á námskeiðinu sem við köllum "Skyndihjálp - aðkoma að slysavettvangi" en á því námskeiði fá leiðsögn slökkviliðsmanna hjá Slökkviliði Akureyrar," segir Grétar.
Áður en kemur til lokunar SÍMEY vegna sumarleyfa verður boðið upp á tvö endurmenntunarnámskeið atvinnubílstjóra; annars vegar aðkoma að slysavettvangi þann 9. júní og hins vegar vöruflutninga 23. júní nk. Þráðurinn verður síðan tekinn upp í ágúst, að loknum sumarleyfum.
Bílstjórar sem fengu aukin ökuréttindi fyrir 10. september 2013 skulu hafa lokið sinni fyrstu endurmenntun fyrir 10. september 2018 og eftir það allir við endurnýjun (þ.e. á fimm ára fresti). Í því felst að þeir þurfa að hafa lokið fimm námskeiðum - þremur svokölluðum kjarnanámskeiðum og tveimur valnámskeiðum.