Tilfinningagreind og markþjálfun voru meginstef námskeiðs sem þrír verkefnastjórar hjá SÍMEY, Kristín Björk Gunnarsdóttir, Sandra Sif Ragnarsdóttir og Ingunn Helga Bjarnadóttir, sóttu á Puerto de la Cruz á Tenerife dagana 5.-12. mars sl. Auk þeirra voru þrír þátttakendur frá Akureyrarbæ og aðrir tíu þátttakendur frá Spáni, Litháen, Belgíu, Tékklandi og Ungverjalandi. Námskeiðið, sem bar yfirskriftina “Emotional intelligence and coaching skills for teachers, school and adult education staff”, var fjármagnað af Erasmus+ styrkjaáætlun ESB sem tekur m.a. til menntamála. Skipulag og framkvæmd þess var í höndum fyrirtækisins ELA – Erasmus Learning Academy, sem er með höfuðstöðvar sínar í Bologna á Ítalíu. Eigandi ELA, Francesco Tarantino, var leiðbeinandi á námskeiðinu.
Starfsmenn SÍMEY hafa áður sótt námskeið sem ELA stóð fyrir og þá var það í heimaborg fyrirtækisins í Bologna. Í ljósi góðrar reynslu af því námskeiði skráðu Kristín Björk, Sandra Sif og Ingunn Helga sig á námskeiðið í Puerto de la Cruz og þegar upp er staðið segja þær að það hafi í senn verið fjölbreytt og gagnlegt. Markmiðið hafi verið að fá þátttakendur til þess að skoða tilfinningagreind fólks út frá ýmsum sjónarhornum og með ákveðnum verkfærum, með það að leiðarljósi að þeir geti síðan nýtt sér þessa þekkingu í kennslu og almennt í samskiptum við fólk. Hluti námskeiðsins snerist líka um að kynnast staðháttum, menningu og náttúru og var m.a. farin ferð í þjóðgarð Tenereife við eldfjallið El Teide þar sem náttúrufegurðin lætur engan ósnortinn.
Tilfinningagreind tekur m.a. til sjálfsvitundar, sjálfsstjórnar, samkenndar og félagsfærni. Allt eru þetta hugtök sem eru lífið sjálft og hvernig hver og ein manneskja tekst á við hversdaginn. Hér er m.a. horft til þess að hver einstaklingur þekki eigin tilfinningar og annarra, nokkuð sem kennarar eru að fást við dag hvern í kennslu. Aðstæður í kennslu geta verið allskonar, stundum þarf hvatningu, stundum þarf að ýta undir samskipti og stundum upplifa kennarar sinnuleysi. Allt eru þetta tilfinningar sem kennarar og nemendur þurfa að vinna með.
Kristín, Sandra og Ingunn segjast vera reynslunni ríkari og ágætlega nestaðar eftir námskeiðið á Tenerife. Það hafi verið lærdómsríkt og gefið þeim nýja sýn á tilfinningagreind og hvernig megi vinna með hana í kennslu og lífinu sjálfu. Einnig sé alltaf lærdómsríkt að kynnast fólki í sambærilegum störfum í öðrum löndum og sjónarmiðum þess. Þegar upp er staðið víkki þetta út sjóndeildarhringinn sem nýtist til þess að stíga út fyrir rammann og feta nýjar slóðir í kennslu.