Eins og kom fram í frétt hér á heimasíðunni sl. föstudag er óvenju mikil aðsókn núna á haustönn á námskeið hjá SÍMEY í íslensku sem annað tungumál. Af fimmtán námskeiðum eru tvö kennd á Dalvík. Þar kenna Sigríður Gunnarsdóttir og Guðný Sigríður Ólafsdóttir íslensku á fyrsta stigi.
Guðný segir að í þessum tveimur námshópum hafi samtals 28 manns hafið námið en þrír hafi af ýmsum ástæðum hætt og nú séu nemendurnir 25. Hún segir þetta óvenju mikla aðsókn.
Fyrst og fremst segir Guðný að stuðst sé við bókina Íslenska á allra vörum 1 en einnig við heimagert efni, spil og leiki til þess að þjálfa talmálið. „Við nýtum okkur einnig upplýsingatækni í bland til að koma til móts við sem flesta,“ segir Guðný og vísar til kennsluforritsins www.mms.is auk vefjarins www.icelandiconline.com. Þá segir hún gott að þjálfa orðaforðann með Kahoot spurningaleikjum o.fl. „Við hvetjum nemendurna til að æfa sig heima, t.d. í þessum kennsluforritum á netinu sem eru ókeypis og opin öllum. Við erum einnig með facebooksíðu fyrir hópinn þar sem við setjum inn ýmsar upplýsingar, tengla á þessar síður og fleira,“ segir Guðný.
Nemendur á þessum grunnnámskeiðum á Dalvík í íslensku koma meðal annars frá Tælandi, Filippseyjum, Póllandi, Frakklandi, Rússlandi, Grikklandi og Lettlandi.