Í byrjun maí var Sæplastskólinn svokallaði opnaður en um er að ræða veflægan fræðsluskóla sem starfsmenn Sæplasts á Dalvík hafa aðgang að og geta nálgast margskonar fræðsluefni sem nýtist þeim vel. Sæplastskólinn er afrakstur þróunarverkefnis sem var styrkt af Landsmennt. Starfsmenn SÍMEY önnuðust verkefnastjórn og unnu námsefni fyrir skólann með Sæplasti.
Á árinu 2019 vann SÍMEY fræðslugreiningu fyrir Sæplast. Í kjölfarið var sett upp fræðsluáætlun fyrir fyrirtækið á síðari hluta 2019 en vegna Covid tók hún breytingum og sú hugmynd kom upp að búa til veflægan fræðsluskóla. Niðurstaðan var sú að nýta kerfislausnina Teachable frá Tækninámi, sem býður upp á uppsetningu skóla á netinu. Á síðari hluta síðasta árs hófst vinna við verkefnið, stofnaður var stýrihópur hjá Sæplasti sem lagði línur um hvaða fræðsluefni skyldi verða í skólanum og framsetningu þess. Nokkrir úr starfshópnum sóttu námskeið hjá Tækninámi um notkun og stýringu Teachable kerfisins. Til loka haustannar og núna á vorönn hefur verið unnið að því að vinna og setja inn fræðsluefni og sem fyrr segir var Sæplastskólinn opnaður í byrjun þessa mánaðar.
„Nú er aðgengilegt mikið af fræðsluefni sem Sæplast átti og hefur uppfært. Einnig hefur verið gert nýtt fræðsluefni fyrir skólann þar sem m.a. hefur verið horft til þess að upplýsa nýliða um framleiðsluferlið og allt sem þeir þurfa að vita þegar þeir hefja störf hjá fyrirtækinu. Í skólanum hafa starfsmenn m.a. aðgang að námskeiðum, t.d. skrifstofu- og tölvunámskeiðum frá Tækninámi, sem þeir geta farið í gegnum þegar hentar.
Við áttum mjög gott samstarf við Einingu-Iðju og tókum upp og settum í skólann fyrirlestur frá félaginu um þjónustu þess, réttindi og skyldur, launaseðla o.fl. Þetta efni mun einnig verða aðgengilegt á ensku. Nú hafa allir starfsmenn Sæplasts fengið sinn aðgang að skólanum og geta sótt sér fræðsluefni þegar þeim hentar, skólinn er lokaður öðrum,“ segir Sif Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY.
Sif segir að SÍMEY muni fylgja verkefninu eftir, áfram verði sett inn efni og mögulega þurfi að breyta eitthvað í uppsetningu og viðmóti o.fl. „Að mínu mati hefur þarna tekist mjög vel til og það er engin spurning í mínum huga að slíkur fræðsluskóli myndi nýtast fjölmörgum öðrum fyrirtækjum,“ segir Sif Jóhannesdóttir.