Færni á vinnumarkaði - nýtt verkefni framhaldsfræðslunnar

Námið skiptist í kennslu innan veggja símenntunarmiðstöðvanna og starfsþjálfun á vinnustöðum.
Námið skiptist í kennslu innan veggja símenntunarmiðstöðvanna og starfsþjálfun á vinnustöðum.

„Þetta fer mjög vel af stað og mér finnst þátttakendur vera jákvæðir. Verkefnið er hafið hjá öllum ellefu símenntunarmiðstöðvum landsins. Hér í SÍMEY eru sjö þátttakendur í verkefninu,“ segir Jenný Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, sem heldur utan um nýtt tilraunaverkefni framhaldsfræðslunnar um allt land sem hefur verið kallað Smiðja 1-2 Færni á vinnumarkaði. Verkefnið byggir á vottaðri námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Námskráin sem þetta nám byggir á er afrakstur verkefnis félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem hefur það að markmiði að auka náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk. Það hefur verið unnið í samstarfi símenntunarmiðstöðvanna, Fjölmenntar, Vinnumálastofnunnar og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Hæfnigreiningar sex starfa voru unnar af hálfu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og skrifaðar námslýsingar fyrir hvert starf út frá námskránni Færni á vinnumarkaði. Störfin eru við endurvinnslu, starf í vöruhúsi / á lager, við umönnun, í leikskóla, verslun og við þrif og þjónustu.

Námið er ætlað fólki sem vill efla starfshæfni sína með því að fá þjálfun og fræðslu, bæði almennt en einnig tengt ákveðnu starfi innan þeirra sex starfaprófíla sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins tók saman. Námið er 180 klukkustundir á 1. þrepi hæfniramma um menntun á Íslandi.

Samtals eru um 70 þátttakendur í þessu verkefni núna á haustönn hjá öllum símenntunarmiðstöðvunum landsins. Það er því óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið mjög góðar, sem segir sitt um þörfina.

Námið er annars vegar innan veggja símenntunarmiðstöðvanna – samtals 70 klukkustundir – og hins vegar starfsþjálfun á vinnustað – samtals 110 klukkustundir. Í fræðsluhlutanum er t.d. horft til almennrar starfshæfni, vinnustaðamenningar, sjálfseflingar, samskipta, tímastjórnunar og færslu verkdagbóka.

„Hjá okkur í SÍMEY eru sjö þátttakendur í verkefninu á aldrinum 20-35 ára. Núna er þriðja vikunni að ljúka hér í SÍMEY og í þessari viku byrjaði hluti þátttakenda í starfsþjálfun á vinnustöðum. Verkefnið er alla virka daga vikunnar, þrjá tíma á dag. Tvo daga vikunnar koma þátttakendur hingað í SÍMEY og þrjá daga er starfsþjálfun á vinnustöðum. Í SÍMEY förum við meðal annars yfir ýmislegt er lýtur að almennri starfshæfni og sjálfstyrkingu og förum í gegnum verkdagbækur og á vinnustöðunum eru síðan tengiliðir sem halda utan um starfsþjálfunina á hverjum stað. Í lok verkefnisins í desember verða tekin matsviðtöl við þátttakendur. Við í SÍMEY söfnum síðan þeim upplýsingum frá öllum símenntunarmiðstöðvunum, skráum þær og komum áfram til Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, sem gefur út Fagbréf atvinnulífins til þeirra sem ljúka náminu og uppfylla hæfniþætti þess,“ segir Jenný Gunnarsdóttir.