Finnið leiðir til að tala íslensku!

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, verkefnastjóri íslenskukennslu hjá Háskólasetri Vestfjarða.
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, verkefnastjóri íslenskukennslu hjá Háskólasetri Vestfjarða.

Rætur íslenskuátaksins Gefum íslensku séns eru hjá Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði. Hugmyndasmiðurinn Ólafur Guðsteinn Kristjánsson er verkefnastjóri íslenskunáms við Háskólasetrið og auk þess aðjúnkt við Háskóla Íslands þar sem hann fjarkennir hagnýta íslensku sem annað mál. Þessi hugmyndafræði Ólafs hefur vakið verðskuldaða athygli og hlaut hún í nóvember sl. viðurkenninguna Evrópumerki eða European Language Label, sem er ætluð tungumálakennurum og/eða öðrum sem koma að nýsköpun og tækniþróun í tungumálakennslu. Viðurkenningin var veitt af Mennta- og barnamálaráðuneytinu og Rannís – í samstarfi við framkvæmdastjórn ESB - fyrir nýbreytniverkefni á sviði tungumálanáms og kennslu.

Í SÍMEY er nú þegar farið að feta braut þessarar hugmyndafræði í kennslu í íslensku sem öðru tungumáli og í því sambandi komu nemendur í MA í heimsókn í SÍMEY og  og spjölluðu við nemendur af erlendum uppruna sem eru á íslenskunámskeiðum.

Til þess að fylgja þessu eftir fékk SÍMEY Ólaf Guðstein, sem hefur frá byrjun unnið að þessu átaksverkefni í sínum frístundum og án greiðslu, til þess að koma til Akureyrar í síðustu viku og kynna Gefum íslensku séns átakið. Hann var m.a. með kynningu í SÍMEY, hjá Akureyrarbæ, í Skógarböðunum, Norðurorku, Rauða krossinum, á Sjúkrahúsinu á Akureyri og Amtsbókasafninu og einnig fór hann í VMA og ræddi þar við kennara.

Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri í SÍMEY, telur mikilvægt að kynna þessa hugmyndafræði sem víðast í því skyni að efla íslenskukennslu og -þjálfun fólks af erlendum uppruna sem starfi í fyrirtækjum og stofnunum út um allt land. Allar upplýsingar um verkefnið veita Kristín Björk (kristin@simey) og Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir verkefnastjóri (silla@simey.is).

Einföld hugmyndafræði
Hugmyndafræðin að baki Gefum íslensku séns er ekki flókin. Viðhorfsbreyting er lykilhugtakið, að tala íslensku við þá sem vilja læra íslensku en skipta ekki jafn harðan yfir í ensku ef fólk af erlendum uppruna skilur ekki merkingu orða í fyrstu tilraun. Lykilatriðið er að tala íslenskuna hægt og skýrt og endurtaka orð og setningar ef fólk af erlendum uppruna á erfitt með að skilja. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að fjarri því allir sem hingað koma frá útlöndum skilja eða tala ensku.

Tilurð Gefum íslensku séns
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson bjó lengi í Þýskalandi, Króatíu og Svíþjóð og þurfti þar eðli málsins samkvæmt að læra ný tungumál. Hann þekkir því vel hvernig það er læra framandi tungumál. Í Þýskalandi kenndi Ólafur, sem lærði á sínum tíma bókmenntafræði í Háskóla Íslands, íslensku sem erlent mál og á Ísafirði fór hann að kenna fólki af erlendum uppruna íslensku sem annað mál.
„Ég hef lengi haft mikinn áhuga á tungumálum og þessi áhugi hefur síðan í auknum mæli beinst að máltileinkun. Árið 2021 flutti ég með fjölskyldunni til Ísafjarðar. Þar vissi ég að höfðu verið miklar lýðfræðilegar breytingar en ég gerði mér þó ekki grein fyrir að þær væru jafn víðtækar og raun ber vitni.
Ef við horfum til alls landsins er athyglisvert að árið 1994 þegar Ísland varð hluti af Evrópska efnahagssvæðinu bjuggu hér innan við fimm þúsund manns af erlendum uppruna eða um 1,8%, árið 2012 var hlutfallið 6,2% og nú er það tæplega 20%. Ég er sannfærður um að bróðurpartur fólks af erlendum uppruna sem hingað flytur er kominn til að vera og því þurfa Íslendingar að hætta að líta á það sem túrista. Margir þeirra sem hingað koma sækja íslenskunámskeið og leggja mikið á sig við að læra fallbeyingar orða, orðaforða o.s.frv. Þetta fólk býr í flestum tilfellum ekki svo vel að eiga hér bakland íslensks fólks. Og því er sú spurning áleitin hvar þetta fólk geti þá haft aðgang að íslensku, með öðrum orðum fengið tækifæri til þess að tala íslensku? Jú, mögulega í bakaríinu eða úti í búð. Ef hins vegar afgreiðslufólkið í bakaríinu eða búðinni skiptir um leið yfir í ensku, hvar á þá þetta erlenda fólk að fá tækifæri til þess að æfa sig í íslenskunni? Eftir að ég flutti til Íslands fór ég að veita þessu athygli og velta vöngum yfir því hvernig við gætum snúið við blaðinu. Átakið Gefum íslensku séns varð til í framhaldinu og það gengur sem sagt fyrst og fremst út á hugarfarsbreytingu okkar allra. Ég vil þó taka fram í þessu sambandi að það hefur alltaf verið stefna Háskólaseturs Vestfjarða að nærsamfélagið sé hluti af tungumálatileinkun.“

Átak fyrir allt landið
Gefum íslensku séns var í fyrra styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála og árið 2022 hlaut átakið viðurkenningu frá Íslenskri málnefnd.

Átakið Gefum íslensku séns segir Ólafur að hafi alltaf verið hugsað sem viðbót við íslenskunámskeið. Það hafi staðið fyrir ýmsum viðburðum, t.d. hraðíslensku, eins og samræður MA-nemanna við íslenskunemana í SÍMEY í síðasta mánuði, bingóum á íslensku, málþingum o.fl.

„Við viljum að sjálfsögðu ná til alls landsins með þetta átak, enda teljum við brýna nauðsyn á því, og allar ábendingar og nýjar hugmyndir eru vel þegnar. Þó svo að þessu hafi verið komið á koppinn á Vestfjörðum vil ég að verkefnið festi rætur út um allt land. Fólkið sem hingað kemur frá öðrum löndum er ekki bara tölur á blaði og það er heldur ekki bara vinnuafl, þetta er fólk sem vill vera hluti af okkar samfélagi og við eigum að bjóða það velkomið í málsamfélagið. Það er algjört lykilatriði. Fólk af erlendum uppruna sem vill læra íslensku verður að mæta velvilja en ekki leiðréttingaáráttu. Það er engum þeim sem er nýlega byrjaður að læra íslensku gerður greiði með því að leiðrétta t.d. fallbeyingu orða. Hún skiptir engu máli í upphafi en kemur mögulega síðar þegar fólk er komið lengra í íslenskunáminu og hefur meiri tilfinningu fyrir málinu. Fólk þarf fyrst og fremst að læra grunninn í talmálinu til að geta bjargað sér og við sem höfum íslensku að móðurmáli höfum í því gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna. Almenn vitundarvakning verður að eiga sér stað í samfélaginu til þess að við getum boðið fólk velkomið hingað. Við verðum með öllum tiltækum ráðum að reyna að fyrirbyggja að myndist gjá á milli þeirra sem tala íslensku og þeirra sem ekki tala íslensku. Það er misskilin kurteisi Íslendinga að grípa til enskunnar í tíma og ótíma. Mögulega telja margir að íslenskan sé flóknari en hún í raun er. Ég geri ekkert lítið úr því að það er erfitt fyrir marga að læra íslensku, um hana gildir það sama og önnur tungumál. En ég tel hins vegar við gerum allt of mikið úr því að íslenskan sé latína norðursins og að læra hana sé aðeins á færi helstu gáfumanna. Það er algjör reginfirra.“

Almannakennarar!
„Ein regla er gegnumgangandi í þessu verkefni og hún tekur bæði til Íslendinga og fólks af erlendum uppruna: Finnið leiðir til að tala íslensku! Stundum þarf auðvitað að fara Krýsuvíkurleið en það skiptir ekki máli svo framarlega sem allir leita leiða til þess að gera sig skiljanlega á íslensku. Fyrst og fremst er þetta æfing til þess að skapa tækifæri fyrir báða aðila, ekkert síður okkur Íslendinga, til þess að tala íslenskuna á einfaldan hátt og um leið gegnum við sem hér erum fædd og uppalin hlutverki almannakennara. Það hugtak kemur úr smiðju Peter Weiss, forstöðumanns Háskólaseturs Vestfjarða, sem kemur frá Bæjaralandi í Þýskalandi og hefur reynslu af því að læra íslensku. Í Covid-faraldrinum vorum við öll almannavarnir. Þetta gildir líka um íslenskukennslu, við erum öll almannakennarar,“ segir Ólafur Guðsteinn Kristjánsson.