Á síðasta ári hlutu Þekkingarnet Þingeyinga ásamt SÍMEY styrk úr áherslusjóði EYÞINGS til að vinna að verkefni sem ber heitið fjarfundamenning.
Meginmarkmið með framkvæmd verkefnisins voru að auka og efla þekkingu og notkun kjörinna fulltrúa á Eyþingssvæðinu á fjarfundum í nefndum/ráðum/stjórnum sveitarfélaga. Auka þekkingu starfsmanna stjórnsýslunnar á notkun fjarfunda í daglegu starfi. Gera sveitarfélögin á svæðinu betur í stakk búin til að innleiða störf án staðsetningar.
Verkefninu var skipt upp í fjóra verkþætti, greiningu, vinnulag, tækni og þjálfun.
Áformað var að ljúka verkefninu um áramót en ekki reyndist unnt að ljúka síðasta hluta verkefnisins sem laut að þjálfun starfsmanna og kjörinna fulltrúa fyrr en í janúar.
Starfsmenn SÍMEY og Þekkingarnetsins sem unnu að verkefninu skiluðu til Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE – sem er nýtt heiti á EYÞING) afurðum verkefnisins í liðinni viku. Þar má finna vefnámskeið í formi talglæra um lög og reglur og fundarstjórn og tækni, lítinn hagnýtan bækling um fjarfundi ásamt ítarlegri lokaskýrslu verkefnisins með verklagsreglum og gátlistum sem nýst geta starfsmönnum jafnt sem kjörnum fulltrúum.
Ýmsa þætti skýrslunnar og afurða verkefnisins geta fyrirtæki og stofnanir hagnýtt sér.
Hér má nálgast glærunar um lög og reglur og fundarstjórn og tækni á video formi.