SÍMEY leggur áherslu á fjölþætta þjónustu fyrir innflytjendur og flóttafólk, til þess að ná til sem flestra sem vilja læra íslensku sem annað mál og fræðast um íslenskt samfélag. Á þessu ári hefur verið umtalsverð fjölgun þátttakenda á slíkum námskeiðum.
Hefðbundin íslenskunámskeið í staðnámi eru fjögur – á þrepi 1 til 4 eða frá A1-A2 samkvæmt evrópska tungumálarammanum. Auk þess hefur SÍMEY aukið framboð á veflægum námskeiðum í íslensku sem annað mál, sem þýðir að fólki er kennt í dreifnámi í gegnum netið. Þar er einnig boðið upp á nám á stigi 5 (B1/B2).
„Við höfum aukið þjónustustigið í íslenskukennslunni með tilkomu hæfnimatsins, sem gefur fólki tækifæri til þess að finna hver kunnátta þess er í íslensku og velja námskeið út frá því. Tilfinning mín er sú að hæfnimatið sé til þess fallið að hvetja fólk til þess að halda áfram og byggja ofan á sína kunnáttu með því að sækja meira íslenskunám,“ segir Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY.
Auk framangreindra íslenskunámskeiða býður SÍMEY upp á námskeið í íslensku sem annað mál sem sérstaklega er ætlað erlendum mæðrum og geta þær þá tekið börnin með sér í kennslustundir. Þetta er brýn nálgun þar sem þessi hópur hefur í flestum tilfellum engan til að gæta barnanna og á því erfitt með að sækja nám á dagtíma. Þetta tiltekna verkefni er styrkt af Zontaklúbbi Akureyrar sem hefur stutt ötullega við þennan hóp undanfarin ár.
Þá hefur SÍMEY aukið framboð á íslenskunámskeiðum fyrir fólk sem hefur litla eða enga kunnáttu í ensku og eru nú slík námskeið í boði fyrir annars vegar arabísku- og hins vegar rússneskumælandi fólk. Þessi námskeið eru í boði í bæði staðnámi og dreifnámi. Kristín Björk segir reynsluna sýna hversu mikilvægt sé að bjóða upp á íslenskunámskeið, sérstaklega byrjendastig, þar sem leiðbeinendur tali móðurmál viðkomandi nemenda. Staðreyndin sé sú að margir hafi ekki vald á ensku og því sé mikils virði að geta komið til móts við það fólk með námskeiðum þar sem samskiptatungumálin séu, auk íslensku, önnur en enska. „Við erum svo heppin að fá að njóta krafta frábærra leiðbeinenda og getum því boðið upp á námskeið á arabísku, rússnesku, pólsku, tékknesku og erum vonandi að bæta við okkur búlgörsku og jafnvel svahíli. Án þessa góða fólks hefðum við ekki möguleika á þessari þjónustu. Miðað við eftirspurnina er þörfin mjög mikil, bæði í staðnámi og í gegnum vefinn,“ segir Kristín Björk og bætir við að nú sé SÍMEY að kenna slíkt vefnámskeið á arabísku fyrir fólk búsett um allt land.
Auk íslenskunámskeiða býður SÍMEY upp á samfélagsfræðslu fyrir flóttafólk og fólk af erlendum uppruna sem hefur búið hér til lengri tíma. Stóraukin ásókn hefur verið í þetta nám á síðustu misserum, ekki síst af flóttafólki frá Úkraínu og Venesúela og einnig fólki sem hefur arabísku að móðurmáli. „ Núna í nóvember var í fyrsta skipti boðið upp á veflægt námskeið í samfélagsfræðslu fyrir fólk frá Úkraínu,“ segir Kristín Björk.
Á þessum námskeiðum, sem ganga undir nafninu Landneminn, er lögð áhersla á fræðslu um ýmislegt í íslensku samfélagi, t.d. heilbrigðiskerfið, menningu, fjármál, þjónustu ríkis og sveitarfélaga og fjölmargt annað. Að samfélagsfræðslunni vinnur SÍMEY í samstarfi við Vinnumálastofnun og Akureyrarbæ.
Kristín Björk segir ánægjulegt að finna hversu mikinn áhuga fólk sýni því að læra íslenskuna og aðdáunarvert sé hvað fólk leggi mikið á sig til að ná tökum á tungumálinu og að komast betur inn í samfélagið.