Það var skemmtileg tilviljun að fjórar samstarfskonur af leikskólanum Krummakoti í Eyjafjarðarsveit, Lina Rimkiene, Iveta Brocová, Katrín Kristjánsdóttir og Erna María Halldórsdóttir, skyldu útskrifast saman úr námi SÍMEY í leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú í desember sl.
„Ég hóf störf á Krummakoti haustið 2016 og ákvað þá að fara í þetta nám. Erna María byrjaði þar líka á sama tíma en bæði Lina og Iveta störfuðu þar fyrir. Ég hafði lengi verið á leiðinni í nám, enda hafði ég ekki verið á skólabekk síðan í grunnskóla. En þarna fannst mér tækifærið gefast. Ég hef lengi unnið með börnum, bæði á leikskóla og sem dagforeldri. Það varð úr að við fórum allar í þetta nám hjá SÍMEY og lukum því saman í desember sl.,“ segir Katrín Kristjánsdóttir. Hér er hún með Linu, Ivetu og Ernu á Krummakoti að lokinni útskrift í desember sl.
Hún segir að það hafi vissulega verið töluvert átak að drífa sig í nám eftir svo langt hlé frá skólabekk. En um leið og fyrsta kennslustundin var að baki sagðist hún hafa fundið hversu mikilvægt og gott það væri að hafa tekið þetta skref. Námið hafi verið afar fræðandi og skemmtilegt, vel upp sett og markvisst og kennslan sérstaklega góð. „Það sem mér fannst mikilvægt var hversu skemmtilegar umræður spunnust í tímum á milli okkar nemendanna og kennara. Hver og einn miðlaði sinni reynslu og þannig byggðum við í sameiningu upp góðan reynslubanka. Í mínum huga er engin spurning að það eykur öryggi manns í vinnunni að hafa aflað sér þessarar þekkingar og vissulega skiptir það máli að fá ákveðna viðurkenningu á því sem maður er að gera dags daglega. Þarna var farið yfir fjölmargt sem við bæði könnuðumst við og einnig hluti sem kom mér skemmtilega á óvart. Ég get í því sambandi nefnt barnabókmenntir og þroskasálfræði. Í það heila var þetta nám mjög skemmtilegt og gaf mér mikið. Ég mæli eindregið með því,“ sagði Katrín Kristjánsdóttir.