„Sveitarfélögin eru misjafnlega langt komin í umhverfismálum. Það er ekki vegna þess að þau hafi misjafnlega mikinn áhuga á þessum málaflokki, því enn sem komið er hef ég ekki hitt einn einasta sveitarstjórnarmann sem hefur engan áhuga á innleiðingu hringrásarhagkerfisins. En vissulega getur margt í umhverfismálunum verið ruglingslegt fyrir fólk. Umhverfismálin eru verkefni sem hvorki byrjar né endar, það gengur í hring. Fólk þarf hreinlega að stökkva á vagninn og það getur oft verið snúið. Ekki aðeins þurfa sveitarstjórnirnar að taka þátt í þessu heldur þurfa fyrirtækin í viðkomandi sveitarfélagi einnig að taka þátt og almenningur þarf að vera samþykkur ákveðnum grunnatriðum í umhverfismálum. Það þarf því að samræma sjónarmið til þess að hlutirnir gangi upp. En almennt finnst mér að okkur sé að ganga bærilega vel í þessum málaflokki.
Núna erum við að innleiða lög sem tóku gildi 1. janúar 2023 og ég vil halda því fram að það hafi gengið vel og ansi margt hefur breyst til hins betra frá upphafi árs. Við viljum kalla þessi nýju lög Hringrásarlögin, en þau uppfæra eldri lög um meðhöndlun úrgangs, hollustu og mengunarvarnir og úrvinnslugjald . Þessi nýju lög eru í takti við það sem Evrópulönd hafa unnið eftir varðandi hringrásarhagkerfið, að nýta hluti sem allra best og minnka úrgang sem kostur er,“ segir Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, líffræðingur og sérfræðingur á Umhverfisstofnun.
Í liðinni viku var hann í upptökum á sex stuttum erindum um umhverfismál sem verða aðgengileg í rafrænum skóla í umverfis- og loftlagsverkefninu LOFTUM. Þar beinir hann sjónum að hringrásarkerfinu og umhverfismálum.
„Í þessum erindum fjalla ég almennt um hringrásarhagkerfið, fyrir hvað það stendur og hvernig það virkar. Ég ræði um úrgangsforvarnir og verkefnið Saman gegn sóun. Einnig ræði ég um sóun á mat, plasti, textíl og raftækjum. Grunnstefið í þessu öll er hvernig við getum komið í veg fyrir að úrgangur verði til og hvaða leiðir séu færar í því. Við viljum ekki enda á því að urða eða brenna úrganginn okkar, við viljum nota hann aftur,“ segir Jóhannes.
„Almennt tel ég að fólk, hvort sem það eru stjórnmálamenn eða almenningur, sé afar móttækilegt fyrir þátttöku í umhverfis- og loftslagsmálum. Þetta er málaflokkur sem fólk lætur sér annt um og er mikið að hugsa um. Oft veit fólk ekki hvar það á að byrja og því er mjög gagnlegt fyrir sveitarstjórnir og þá sem eru í stjórnunarstöðum hjá sveitarfélögunum að eiga samtal við okkur hjá Umhverfisstofnun til þess að fá það sjálfstraust sem þarf til þess að taka ákvarðanir fyrir sitt nánasta umhverfi. Fyrirtæki eru að leita sér að nýskapandi lausnum sem tengjast hringrásarhagkerfinu og nýlega var stofnaður svokallaður Hringrásarklasi, sem er á ýmsan hátt sambærilegur við Sjávarklasann sem hefur skilað ýmsum hliðarafurðum í sjávarútvegi sem áður voru ekki nýttar. Hringrásarklasinn er þessi vettvangur fyrir fyrirtæki sem vilja búa til nýskapandi lausnir í hringrásarhagkerfinu. Ég starfa að hluta við Hringrásarklasann og við sem komum að honum viljum veita öllum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum, hjálp og ráðgjöf sem vinna að nýskapandi lausnum í anda hringrásarkerfisins. Gleymum því ekki að hringrásarhagkerfið felur í sér mikil verðmæti. Með því að endurnýta hluti þarf ekki að kaupa nýtt hráefni og það eitt er gríðarlega verðmætaskapandi fyrir samfélagið,“ segir Jóhannes Bjarki.