Streita og kulnun rædd frá ýmsum hliðum á Forvarnardegi SÍMEY og Streituskólans í Hofi 17. október

Málþingið verður í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri 17. október. Skráning stendur yfir á www.simey.is
Málþingið verður í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri 17. október. Skráning stendur yfir á www.simey.is

Í næstu viku, nánar tiltekið fimmtudaginn 17. október, standa SÍMEY og Streituskólinn fyrir málþingi í Menningarhúsinu Hofi sem ber yfirskriftina Forvarnardagur Streituskólans og SÍMEY.

Dr. Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir stofnaði Forvarnir og Streituskólann árið 2001. Forvarnir eru fyrirtæki sem starfar að geðheilsueflingu og forvörnum. Streituskólinn og Streitumóttakan eru hluti af starfsemi Forvarna. Snemma á þessu ári var síðan opnuð Streitumóttaka á Læknastofu Akureyrar og Streituskólinn á Akureyri hóf starfsemi. Umdæmisstjóri er Helga Hrönn Óladóttir. Kjörorð Streituskólans er Fræðsla til forvarna og veitir hann fræðslu um streituvarnir, eflingu geðheilsu og betri samskipti.

Í hraða nútímasamfélags verður hugtakið streita alltaf meira og meira áberandi. Fyrir nokkrum árum voru fáir sem áttuðu sig á kulnun í starfi en nú er viðurkennt að þetta er alvarlegt vandamál sem farið er að vinna markvisst gegn.

„Samfélagið hefur breyst, hraðinn er meiri en áður. Það er oft talað um kulnun í starfi en við í Streituskólanum viljum frekar tala um streitu og kulnun í lífinu. Lífið er meira en vinnan og það er mikilvægt að skilja að vinnuna og einkalíf. Það má segja að þessu megi skipta í streitu, kulnun og síðan sjúklega streitu og þegar svo er komið getur viðkomandi verið kominn með algjört verkstol. Sjúkleg streita kemur gjarnan fram í líkamlegum veikindum en kulnun birtist frekar í andlegum veikindum viðkomandi,“ segir Helga Hrönn Óladóttir hjá Streituskólanum á Akureyri. 

Helga Hrönn er mannauðsstjóri og hafði unnið mikið að velferðarmálum, m.a. hjá Tryggingastofnun, áður en hún hóf störf hjá Streituskólanum. Hún segir að þegar skólinn hóf starfsemi snemma á þessu ári hafi fyrirfram verið búist við að hjólin myndu snúast hægt af stað. Raunin hafi hins vegar verið önnur. Frá fyrsta degi hafi verið mikið að gera og því augljóst að mikil þörf hafi verið fyrir þessa starfsemi á Akureyri. Umdæmi Streituskólans á Akureyri er raunar ekki bara Akureyri heldur allt Norðurland. 

„Við leggjum áherslu á fræðslu og förum í því skyni í fyrirtæki og höldum fyrirlestra. Við gerum einnig samninga um að koma inn og leitast við að leysa eineltismál, samskiptavandamál, kynbundið áreiti og fleira. Einnig erum við á Læknastofum Akureyrar með Streitumóttöku þangað sem fólk getur leitað til okkar sem t.d. er að kikna undan álagi í lífi sínu og starfi. Við höfum líka verið með regluleg námskeið í SíMEY og höfum verið með þau síðan í vor. Á þessum námskeiðum fjöllum við um streituna, tímastjórnun, vinnustaðamenningu og fleira,“ segir Helga Hrönn.

Hún segir að með málþinginu í Hofi í næstu viku vilji aðstandendur vekja athygli á og opna á umræðu um streitu og kulnun og  ekki síst að ræða forvarnir til þess að fólk rati út í vítahring streitu og kulnunar.

Sem fyrr segir standa SÍMEY og Streituskólinn sameiginlega að málþinginu og er hægt að skrá sig á málþingið á heimasíðu SÍMEY. Eins og hefur komið fram í frétt hér á heimasíðunni er málþingið ætlað stjórnendum og starfsmönnum fyrirtækja.

Dagskrá málþingsins verður sem hér segir:

13:00 Setning málþings

Karl Frímannsson fundarstjóri og fræðslustjóri Akureyrarbæjar

13:05 Nýjasta þekking á streitu
Ólafur Þór Ævarsson, Ph.D., geðlæknir og stofnandi Forvarna og Streituskólans 

13:25 Kynning á starfsemi Streituskólans og Streitumóttökunnar á Norðurlandi
Helga Hrönn Óladóttir, M.A., Mannauðsstjórnun 

13:35 Niðurstöður nýlegrar rannsóknar ,,Reynsla fólks með kulnun af endurkomu til starfa”
Ragna Dögg Ólafsdóttir, íþróttafræðingur og meistaranemi við Háskólann á Akureyri 

13:45 Leynivopn stjórnenda - Markþjálfun gegn streitu
Aldís Arna Tryggvadóttir, markþjálfi og viðskiptafræðingur

13:50 Þetta læddist aftan að mér 
Heimir Ingimarsson, deildarstjóri Tónlistarskólans á Akureyri  

Kaffihlé 

14:30 Bráðum kemur betri tíð
Jakobína Elva Káradóttir, Starfsendurhæfing Norðurlands 

14:40 Endurkoma inn á vinnumarkað
Jónína Wagfjörð, sviðsstjóri Atvinnutengingar hjá VIRK 

14:50 Hlutverk aðstandenda, samstarfsfólks og stjórnenda
Hafdís Sif Hafþórsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi  

15:00 Að efla mannauðinn - aðgerðaráætlun fyrir fyrirtæki
Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY 

15:10 Sálfélagsleg vinnuvernd - þróun og reynsla í mannauðsmálum hjá Sjóvá
Ágústa Björg Bjarnadóttir, forstöðumaður mannauðs hjá Sjóvá

15:20  Fyrirtækjaþjónusta Streituskólans
Elín K. Guðmundsdóttir, þjónustu- og rekstrarstjóri Forvarna

15:30 Pallborðsumræður 

16:00 Málþingslok