Í dag og til og með nk. fimmtudegi eru fræðsludagar Velferðarsviðs Akureyrarbæjar í SÍMEY þar sem starfsfólk sviðsins fær fræðslu af ýmsum toga. Hver starfsmaður er í 3,5 tíma fræðslu, annað hvort fyrir eða eftir hádegi. Þessir fræðsludagar eru hluti nýrrar sex anna fræðsluáætlunar sem hefur verið unnið að á síðustu misserum fyrir starfsfólk Velferðarsviðs Akureyraræjar. Þessar myndir voru teknar í dag.
Á Velferðarsviði Akureyrabæjar eru fjölbreyttir og fjölmennir vinnustaðir, starfseiningarnar eru sautján og starfsmannafjöldi er tæplega fimm hundruð. Þar af eru um 380 starfsmenn í stéttarfélaginu Einingu-Iðju og um 100 í BHM. Velferðarsvið hefur umsjón með þjónustu- og búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk, félagsþjónustu, barnavernd og þjónustu við börn og fjölskyldur.
Í mörg undanfarin ár hefur Velferðarsvið Akureyrarbæjar verið í samstarfi við SÍMEY um fræðslu fyrir starfsfólk þess, sem á aðild að Einingu-Iðju og BHM. Hún hefur verið skipulögð í samræmi við niðurstöður MARKVISS fræðslugreiningar undir heitinu Fræðslustjóri að láni, sem gerð var veturinn 2017-2018 fyrir búsetudeild Akureyrarbæjar, Plastiðjuna Bjarg Iðjulund og Skógarlund - miðstöð virkni og hæfingar. Síðan eru liðin sex ár og því var talið mikilvægt að uppfæra og endurtaka fræðslugreininguna þar sem miklar breytingar hafa orðið á starfsumhverfinu og nýtt og stærra svið, velferðarsvið, hefur verið sett á stofn.
Vorið 2024 var gerður samningur SÍMEY og Velferðarsviðs Akureyrarbæjar um verkefnið Fræðslustjóri að láni. Sveitamennt átti aðild að samningnum og jafnframt styrkti Starfsþróunarsetur háskólamanna verkefnið. SÍMEY hefur haldið utan um greiningarvinnu og gerð fræðsluáætlunar fyrir velferðarsviðið. Af hálfu SÍMEY hafa ráðgjafar í verkefninu verið Ingunn Helga Bjarnadóttir og Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir.
Settur var á stofn stýrihópur verkefnisins og í honum voru:
Í framhaldinu var unnin starfagreining og var starfsfólk beðið að taka afstöðu til sex meginþátta: Samskipti og persónulegir þættir, samskipti við þjónustuþega/skjólstæðinga, sjúkdómar og algengar fatlanir, öryggismál, tölvufærni og önnur atriði.
Niðurstöður starfagreiningarinnar voru í samráði við stýrihóp verkefnisins nýttar til að útbúa fræðsluáætlun til næstu þriggja ára. Í þeirri vinnu var einnig rætt við sex rýnihópa til þess að fá fram gleggri upplýsingar um fræðsluþörf einstakra starfshópa. Út frá þessari vinnu var síðan unnin fræðsluáætlun fyrir 2025-2027 (6 annir).
Gert er ráð fyrir fræðslu fyrir allt starfsfólk velferðarsviðs. Fræðsludagar verði tvisvar á önn í SÍMEY (eins og eru í þessari viku), valnámskeið fyrir allt starfsfólk eða ákveðna hópa – í stað- eða fjarkennslu og í þriðja lagi verður sértæk fræðsla fyrir markhópa – í stað- eða fjarkennslu. Þessir markhópar eru í stoð- og stuðningsþjónustu, búsetukjörnum fyrir fatlaða, búsetukjörnum fyrir geðfatlaða, skammtímavistun, Skógarlundi, Plastiðjunni Bjargi Iðjulundi, félagsþjónustu og barnavernd og forstöðumenn og skrifstofa.