Í dag var fyrsti námshópurinn í Grafískri hönnunarsmiðju brautskráður frá SÍMEY. Að baki er tíu vikna nám, tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum, fjórar klukkustundir í senn, samtals 80 klukkustundir. Námið var blanda staðar- og fjarnáms. Heiðar Brynjarsson, grafískur hönnuður, annaðist alla kennslu í náminu. Hann segist vera mjög sáttur með hvernig til tókst og segir að áfram verði haldið með þetta nám, nýtt námskeið hefjist í janúar og er skráning í fullum gangi.
Námið hófst 3. október sl. og lauk með brautskráningu í dag. Níu nemendur brautskráðust.
Ég hef aldrei áður kennt slíkt heilstætt nám í grafískri hönnun en áður hef ég kennt markaðshlutann í sölu-, markaðs- og rekstrarnámi hér í SÍMEY.
Áherslan í þessu námi er grunnurinn í notkun þriggja forrita Adobe, þ.e.a.s. Illustrator, Photoshop og Express. Í Illustrator er farið m.a. í grunnþætti í teiknun, litum, letri og myndbyggingu. Í Photoshop, sem líklega flestir þekkja, er farið í allt er lýtur að myndvinnslunni og í Express, sem er nýjasta viðbótin í Adobe, er farið út í hreyfigrafíkina og auglýsingagerð fyrir stafræna miðla. Í öllum þessum forritum hefur gervigreindin hafið innreið sína og hún kemur að sjálfsögðu líka við sögu í náminu. Mín tilfinning er sú að margir haldi að grafísk hönnun sé bara fyrir listhneigt fólk en í rauninni vil ég segja að hún sé til helminga blanda af vísindum og listformi.
Heiðar segir að innifalið í námsgjaldinu sé uppsetning og eins árs aðgangur að Adobe forritapakkanum. Hér á landi eru tvö fyrirtæki sem bjóða upp á Adobe, annað þeirra er Hugbúnaðarsetrið í Reykjavík sem er samstarfsaðili SÍMEY í náminu.
En fyrir hvern er Grafísk hönnunarsmiðja? Heiðar segir að bakgrunnur fólks í þessum fyrsta námshópi sé ólíkur. Sumir hafi farið í námið sér til ánægju og yndisauka en aðrir í þeim tilgangi að nýta þekkinguna í sinni daglegu vinnu og/eða hafi hug á því að nýta þessa kunnáttu í vinnslu á markaðsefni í framtíðinni. Heiðar segir að námið sé einnig góður grunnur fyrir lengra nám í grafískri hönnun.
Mér fannst þetta bráðskemmtilegt, ekki síst vegna þess að bakgrunnur þátttakenda reyndist vera svo ólíkur. Það skapaðist mjög góð stemning í námshópnum og mér fannst nemendurnir gera sér vel grein fyrir að sú kunnátta sem þeir öfluðu sér geti nýst þeim vel í framtíðinni.
Sem fyrr segir verður aftur boðið upp á Grafíska hönnunarsmiðju strax eftir áramót, ef næg þátttaka fæst. Heiðar segir að í grunninn verði námið á sömu nótum en einstaka þættir þess taki einhverjum breytingum.
Skráning í ellefu vikna nám eftir áramót, sem hefst í janúar og lýkur í mars, er í fullum gangi.