Heimurinn breytist hratt þessi misserin. Það sem var í gær verður ekki á morgun. Tæknibreytingarnar eru hraðar sem aldrei fyrr og áður en langt um líður verður drjúgur hluti þeirra starfa sem nú eru á vinnumarkaði unninn af tölvum. Að óbreyttu þýðir það fjöldaatvinnuleysi. Handan við hornið er fjórða iðnbyltingin og hún er í raun nú þegar hafin. Gervigreind er hugtak sem verður æ meira áberandi í umræðunni. Öll heimsbyggðin stendur frammi fyrir stórum áskorunum. Mikil óvissa svífur yfir vötnum og hún teygir sig út um allt samfélagið – hún nær til atvinnulífsins, stjórnkerfisins, félagasamtaka o.fl.
Þetta er í stórum dráttum sú mynd sem Hrund Gunnsteinsdóttir, þróunar- og átakafræðingur, dró upp í fyrirlestri í SÍMEY í dag. Hrund hefur víða komið við bæði hérlendis og erlendis. Hún heldur haldið fjölda fyrirlestra hér á landi og erlendis, skrifað fjölda greina um m.a. skapandi og gagnrýna hugsun, er formaður stjórnar Tækniþróunarsjóðs og hefur unnið að ýmsum verkefnum hér á landi og erlendis, m.a. fyrir Sameinuðu þjóðirnar, t.d. í Kosovo eftir stríðið á Balkanskaga.
Fyrirlestur sinn kallaði Hrund „Gagnrýnin og skapandi hugsun í síbreytilegum heimi“ og þar velti hún upp ýmsum áhugaverðum hliðum á þjóðfélagsþróuninni og þeim hröðu breytingum sem þjóðir heims takast á við þessi misserin. Hún nefndi að Alþjóða efnahagsráðið (World Economic Forum) hafi sett það fram að eftirsóknarverðustu hæfniskröfur á vinnumarkaði árið 2020 séu í fyrsta lagi að geta leyst flókin vandamál, í öðru lagi skapandi og gagnrýnin hugsun og í þriðja lagi mannleg samskipti. Hrund fjallaði um skapandi og gagnrýna hugsun frá ýmsum hliðum og velti fyrir spurningunni „hvað er skapandi hugsun?“ Hún sagði ekkert einhlítt svar vera við þeirri spurningu en hins vegar væri ástæða til þess, í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem ættu sér stað, að endurhugsa menntunina að töluverðu leyti (sú vinna væri raunar þegar hafin) og efla þyrfti svokallaða frumkvöðlahugsun. Hrund sagði það segja ýmislegt um hina hröðu þróun að 65% ungs fólks í heiminum eigi í framtíðinni eftir að vinna störf sem ekki eru til í dag.
Hrund skrifaði handrit að heimildamyndinni Innsæi – The Sea Within sem var frumsýnd í Berlín á síðasta ári og frumsýnd á Íslandi í Bíó Paradís í október sl. Í myndinni er fjallað frá ýmsum hliðum um hvernig nýir tímar kalli á breytt hugarfar og meðvitaða skynjun. Innsæi verður sýnd í Ríkissjónvarpinu um páskana.