Í dag var formlega opnuð í Gallerí SÍMEY sýning á verkum nemenda á þremur myndlistarnámskeiðum sem Bryndís Arnardóttir – Billa hefur haft umsjón með. Í fyrsta lagi er um að ræða námskeiðið „fræðsla í formi og lit“, í öðru lagi „smiðja – málun“ og í þriðja lagi „smiðja – teikning“.
Árið 2013 hóf Billa að bjóða upp á þessi námskeið fyrir 20 ára og eldri í SÍMEY – í samræmi við markmið símenntunarstöðva - og skrifaði hún námsskrár fyrir námið sem voru síðan samþykktar af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Frá byrjun hafa þessi námskeið verið afar vinsæl og hafa færri komist að en vilja. Í vetur hafa um þrjátíu manns verið á námskeiðunum, tíu í hverjum hópi, og segist Billa ekki vilja hafa fleiri nemendur, enda sé um einstaklingsmiðað nám að ræða og því þurfi að gefast tóm til þess að fylgja hverjum og einum nemanda eftir. Í hvorri smiðju er kennt í áttatíu kennslustundir en kennslustundirnar í fræðslu í formi og lit eru tvö hundruð.
Billa hefur kennt listnám til fjölda ára. Árum saman var hún kennari við listnámsbraut VMA en síðan stofnaði hún eigið fyrirtæki, Listfræðsluna, og hefur kennt myndlist á námskeiðum í SÍMEY undanfarin ár. Eins og undanfarna vetur mun Billa fara til Flórída eftir áramót þar sem hún mun kenna verðandi myndlistarkennurum við háskóla í Orlando. Á vorönn mun Guðmundur Ármann Sigurjónsson, sem einnig er margreyndur myndlistarkennari, kenna framhaldsnámskeið í fræðslu í formi og lit. Hér eru upplýsingar og skráning á námskeið.
Valgeir Blöndal Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, upplýsti við opnun sýningarinnar í dag að námskeiðið „fræðsla í formi og lit“ hafi nú fengið formlega vottun frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og að óbreyttu tekur hún gildi frá áramótum. Þetta þýðir að námskeiðið gefur ákveðinn fjölda framhaldsskólaeininga. Smiðjunámskeiðin – í málun og teikningu – eru nú í slíku vottunarferli.
Fjölbreytnin í myndverkum nemenda á sýningunni í Gallerí SÍMEY er allsráðandi. Hér má sjá dæmi um verk á sýningunni. Vert er að taka fram að fólki er velkomið að koma í SÍMEY á opnunartíma til 21. desember og skoða verkin.
Billa segir afskaplega ánægjulegt að fylgja nemendum í gegnum það ferli að láta gamlan draum um að mála eða teikna rætast. Í mörgum tilfellum hafi fólk lengi ætlað sér að taka skrefið en ekki látið verða af því, fyrr en nú. Hún nefndi að einstaklega mikil samkennd og vinskapur hafi einkennt nemendur á námskeiðunum núna á haustönn. „Þau tengsl sem ég hef upplifað í þessum námshópum eru einstök og myndast ekki nema fyrir það að þetta fólk er alveg einstakt,“ sagði Billa.