Nýtt ár er gengið í garð og er landsmönnum öllum óskað farsældar á nýju ári. SÍMEY þakkar öllum þeim sem nýttu sér þjónustu okkar á liðnu ári og minnir um leið á að núna á vorönn er fjölmargt áhugavert í boði, bæði styttri námskeið og lengra nám. Strax í næstu viku hefjast fyrstu námskeiðin og því er fólk hvatt til þess að kynna sér námsframboðið og sækja um sem fyrst til þess að tryggja sér pláss.
Í frétt sem birtist hér á vefnum milli jóla og nýárs var getið um nokkrar af lengri námsleiðum sem verða í boði á vorönn - hönnunar- og tilraunasmiðju FabLab, félagsliðabrú, leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum , myndlistasmiðju - málun og Skrifstofuskólann – en fjölmargt annað er í boði og skráning á öll þessi námskeið er í fullum gangi.
Í næstu viku hefjast t.d. bæði á Akureyri og í Fjallabyggð námskeið í íslensku sem annað mál á öðru stigi og einnig hefst í næstu viku byrjendanámskeið í spænsku í Fjallabyggð. Í þarnæstu viku verður síðan námskeiðið Fólk fyrir fólk og námskeið í íslensku sem annað mál á fyrsta stigi á Akureyri, íslenska sem annað mál á þriðja stigi á Dalvík og framhaldsnámskeið í spænsku á Dalvík.
Námskeiðin hefjast síðan í framhaldinu eitt af öðru og er rétt að benda fólki á að nálgast allar upplýsingar hér á heimasíðunni og hér er einnig hægt að skrá sig á stök námskeið og í lengra nám. Ef eitthvað er óljóst er fólk hvatt til að setja sig í samband við SÍMEY og fá nánari upplýsingar.