Sem fyrr hefur verið þétt setinn bekkurinn núna á haustönn á íslenskunámskeiðum fyrir fólk af erlendum uppruna. Í það heila hafa verið haldin á þriðja tug námskeiða á önninni, flest í húsnæði SÍMEY við Þórsstíg en einnig hafa verið í boði fjarnámskeið þar sem námsefninu og upplýsingum er miðlað á netinu. Íslenskan er kennd í fjórum þrepum þar sem íslenska 1 er grunnurinn og síðan koll af kolli.
Einn af mikilvægustu þáttum í íslenskukennslunni er talhlutinn, að nemendur þjálfist í að tala íslensku sem síðan auðveldar fólki mjög að taka þátt í íslensku samfélagi. Á þennan hátt er alltaf lögð meiri og meiri áhersla og liður í því er svokölluð Hraðíslenska þar sem þátttakendur setjast niður og ræða um daginn og veginn við heimafólk. Í gærkvöld var Kristín Björnsdóttir Jensen að kenna hópi nemenda víðs vegar að úr heiminum á íslenskunámskeiði á þriðja þrepi og var hluti kennslustundarinnar samtal nemenda við tvær konur á Akureyri, Hrefnu Hjálmarsdóttur og Guðrúnu Ástu Guðjónsdóttur. Þessar myndir voru teknar við það tækifæri. Hrefna og Guðrún Ásta og nemendurnir lýstu mikilli ánægju með þessa samverustund.
Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir verkefnastjóri í SÍMEY segir að slíkt uppbrot í kennslunni sé mikilvægt og á þennan hátt hafi fólk tækifæri til þess að þjálfa sig í tungumálinu. Eftir áramótin segir Sigurlaug að enn frekari áhersla verði lögð á þennan þátt í íslenskunáminu. Á síðustu önn komu nemendur í MA í heimsókn í SÍMEY og töluðu við nemendur á íslenskunámskeiðum og eftir áramót er ætlunin að fá fleira fólk utan úr bæ í sama tilgangi.