Verður Eyjafjarðarsvæðið í framtíðinni svokallað skapandi svæði eða District of Creativity? Það er hreint ekki útilokað. Hér er um að ræða töluvert breytta hugsun og áherslurnar eru nokkuð frábrugðnar því sem verið hefur í bæði menntakerfinu og atvinnulífinu. Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar hefur nú hleypt af stokkunum verkefni sem miðar að því að taka fyrstu skref í að innleiða þessa hugsun á svæðinu, sem mætti kalla hagnýting ímyndunaraflsins. Í því skyni hefur SÍMEY ráðið til sín í tímabundið verkefni Arnór Sigmarsson lögfræðing, sem lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2012. Arnór hóf störf fyrir röskum hálfum mánuði.
Í heiminum eru þrettán svæði, þar af níu í Evrópu, sem þessi hugmyndafræði þ.e. hagnýting ímyndunaraflsins - hefur verið þróuð. Einu nafni kallast þessi svæði Districts of Creativity Network -DC Network.
Arnór segir að oftast sé hugtakið Creativity tengt sköpun á listasviðinu en í þessu tilfelli sé hugmyndafræðin mun víðtækari. Hér sé ekki síst horft til tengsla við atvinnulífið, skólakerfið og almennt hvernig komandi kynslóðir séu undirbúnar fyrir breytta tíma enda sé samfélagið smám saman að breytast úr því að vera iðnaðarsamfélag í tæknisamfélag. Þetta þýði í raun að í mörgum tilfellum leysi hverskonar vélbúnaður, sem er afrakstur tækniþróunar, margar vinnuhendur af hólmi og þá sé verkefnið að finna þessum höndum ný verkefni og tækifæri í samfélaginu. Þá kemur til þess að skapa og byggja upp nýja hluti og þar þurfi allir að koma að málum, skólakerfið, atvinnulífið og samfélagið í heild sinni. Arnór segir að hugsunin sé sú að brjótast út úr því að flestir nemendur fari svipaða leið í námskerfinu og horfa í staðinn til þess að námið verði einstaklingsmiðaðra, nemendur mennti sig í takti við áhugasvið hvers og eins og þannig sé í auknum mæli komið til móts við þarfir atvinnulífsins og þar með samfélagsins á hverjum tíma. Mikil áhersla sé lögð á að gera ímyndunaraflinu hærra undir höfði, að fólk setji fram allar mögulegar og ómögulegar hugmyndir sem fólk komist síðan að niðurstöðu um í samræðum sín á milli.
Það verkefni sem Arnór Sigmarsson vinnur nú að hjá SÍMEY kemur í framhaldi af því að hópur fólks úr ýmsum áttum á Akureyri hefur hist og rætt hugmyndir í þessa veru, ekki síst fyrir tilstilli Geirs Hólmarssonar, kennara í Menntaskólanum á Akureyri, sem hefur kynnt sér þessa hugmyndafræði undanfarinn áratug og tileinkað sér hana í kennslu sinni í MA. Í þeim óformlega umræðuhópi sem hefur hist annað slagið og rætt þessi mál hafa m.a. verið fulltrúar framhaldsskólanna á Akureyri, Háskólans á Akureyri, SÍMEY, Vinnumálastofnunar, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Akureyrarbæjar. Úr varð að stjórn SÍMEY ákvað að ganga skrefinu lengra með verkefnið og réð SÍMEY Arnór tímabundið til að taka næstu skref í málinu. Sem fyrr segir hefur hann síðustu rúmar tvær vikur unnið að því að setja sig inn í hugmyndafræðina og hlýtt á ótal fyrirlestra og lesið greinar um hana.
Næsta skref í verkefninu verður síðar í þessum mánuði, þriðjudaginn 22. mars, þegar fyrirlesarar frá tveimur Districts of Creativity annars vegar Susan Shaw McCalmont frá Oklahoma í Bandaríkjunum og hins vegar Pascal Cools frá Flanders í Belgíu koma til Akureyrar og sitja vinnufund með því fólki sem hefur verið að ræða þessi mál hér á svæðinu og einnig verður boðið til þess fundar forráðamönnum sveitarfélaga í Eyjafirði, sem þessa dagana er verið að kynna verkefnið, fulltrúum úr atvinnulífinu o.fl.
Það er óhætt að segja að hér er á ferðinni ákveðin ný hugsun í menntakerfinu, atvinnulífinu og einnig að hluta til í stjórnkerfinu. Við lifum á nýjum tímum og þurfum að hugsa á öðrum nótum og okkar er að undirbúa ungt fólk vel fyrir þessar breytingar á samfélagsgerðinni. Þetta er bara það fyrsta í þessum breytingum og ef vel tekst til horfum við til þess að Eyjafjarðarsvæðið verði District of Creativity eða skapandi svæði og leiðandi í þessu sviði á Íslandi. Við erum bara að taka fyrsta skrefið í því að innleiða eitthvað nýtt og þetta hefur sem sagt þróast út frá umræðum fólks hér á svæðinu sem hefur verið að kynna sér þessa hugmyndafræði út um allan heim. Vinnufundurinn núna í mars er fyrsta skrefið í því að koma þessari vinnu af stað. Framhaldið ræðst síðan töluvert af því hvað út úr vinnufundinum kemur. Mögulega verður haldin ráðstefna sem gæti þá orðið í október á þessu ári. En það kunna að koma fram aðrar hugmyndir frá Susan og Pascal um hvernig best sé að vinna þetta áfram, við sjáum bara til með það, segir Arnór Sigmarsson.