Ingunn Helga Bjarnadóttir er nýr starfsmaður hjá SÍMEY og hóf hún störf sl. mánudag, 1. nóvember. Þennan mánuð er hún í 50% starfi verkefnastjóra hjá SÍMEY á móti 50% starfshlutfalli hjá sínum fyrri vinnuveitanda, Akureyrarbæ, en þar hefur hún gegnt starfi verkefnastjóra starfsþróunar. Frá og með 1. desember nk. verður Ingunn í fullu starfi hjá SÍMEY.
Ingunn Helga ólst upp á Húsavík og lauk stúdentsprófi frá Framhaldskólanum þar. Þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem hún nam landfræði og lauk því námi árið 1995. Síðan fór hún til Írlands í meistaranám í landfræði og beindi sjónum að skipulagsmálum. Þar kynntist hún eiginmanni sínum, Tom Barry, sem einnig er landfræðingur. Tom er framkvæmdastjóri CAFF-skrifstofunnar á Akureyri (Conservation of Arctic Flora and Fauna) en hún er til húsa á Borgum, rannsóknahúsi HA. Eftir námið á Írlandi starfaði Ingunn á þróunarsviði Byggðastofnunar á Sauðárkróki, þar sem hún hafði m.a. verkefni tengd menntun á landsbyggðinni á sínu borði. Frá Króknum lá leiðin til Akureyrar þar sem Ingunn var ráðin til starfa á Jafnréttisstofu. Að tveimur árum liðnum var hún síðan ráðin til Akureyrarbæjar sem verkefnastjóri starfsþróunar og því starfi hefur hún gegnt síðustu ellefu ár.
Ingunn Helga tók jafnhliða vinnu kennsluréttindanám í Háskólanum á Akureyri og nýttist námið afar vel í því starfi sem hún hefur gegnt hjá Akureyrarbæ undanfarin ár. Ingunn hefur ekki lagt námsbækurnar á hilluna því núna stundar hún meistaranám í fullorðinsfræðslu á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Þá stundar hún einnig í vetur framhaldsnám í markþjálfun.
„Starf mitt hjá Akureyrarbæ fólst m.a. í því að aðstoða stofnanir og vinnustaði bæjarins við fræðslumál sinna starfsmanna og jafnframt að þróa námsskrár og námsefni. Starfið var mjög skemmtilegt og fjölbreytt en eftir ellefu ár í þessu starfi taldi ég tímabært að breyta til og þegar starf hjá SÍMEY bauðst ákvað ég að taka skrefið. Ég tel að sú reynsla sem ég hef á þessu sviði og sú menntun sem ég hef lokið og er að bæta við mig nýtist vel í starfi verkefnastjóra hér. Auk þess þekkti ég ágætlega til starfseminnar, bæði vegna samskipta við SÍMEY í starfi mínu hjá Akureyrarbæ og einnig sat ég um tíma í stjórn hér sem fulltrúi Akureyrarbæjar,“ segir Ingunn.
„Ég velti því auðvitað lengi fyrir mér hvort ég ætti að taka skrefið og skipta um starfsvettvang, enda er Akureyrarbær mjög góður vinnustaður og því ekki sjálfgefið að segja sig frá áhugaverðu og fjölbreyttu starfi þar. En ég mat það svo að þetta væri gott vaxtarskref fyrir mig og jafnframt væri gott á þessum tímapunkti fyrir Akureyrarbæ að fá nýjan starfsmann í verkefnastjórn starfsþróunar með nýja sýn og nýjar áherslur. Ég hlakka mikið til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem bíða mín hér hjá SÍMEY,“ segir Ingunn Helga Bjarnadóttir.