Kjartan Sigurðsson nýr starfsmaður SÍMEY

Kjartan Sigurðsson.
Kjartan Sigurðsson.

Kjartan Sigurðsson er nýr starfsmaður Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar. Hann hóf störf um áramót og verður hans helsta verkefni á næstu mánuðum að vinna að málum ferðaþjónustunnar á svæðinu. Í því skyni mun Kjartan starfa náið með Hildi Bettý Kristjánsdóttur, starfsmanni Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, með aðsetur á Akureyri.

Kjartan er Sunnlendingur, fæddur í Birtingaholti í Hrunamannahreppi. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum við Sund í Reykjavík og fór að því loknu í ferðamálafræði en staldraði stutt við þar og skipti yfir í iðnaðarverkfræði. „Ég hafði spilað fótbolta með Fram og einnig Selfossi í efstu deild undir stjórn Guðmundar Benediktssonar og þegar þarna var komið sögu í náminu í HÍ bauðst mér að fara á skólastyrk til Suður-Karolínu í Bandaríkjunum, fara í háskóla þar og spila jafnframt fótbolta. Þetta var vissulega spennandi tækifæri og ég ákvað að slá til. Hins vegar var í þessum háskóla ekki boðið upp á nám í iðnaðarverkfræði og niðurstaðan var því sú að skipta yfir í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun.“

Námi sínu í Bandaríkjunum lauk Kjartan vorið 2013 og ákvað í kjölfarið að elta ævintýrin og spila fótbolta í Finnlandi. Þar var hann í sex mánuði. Aftur lá leiðin til Suður-Karolínu, Kjartan hafði fengið boð um að taka að sér knattspyrnuþjálfun við sama skóla og hann hafði tekið grunnnámið í viðskiptafræðinni. Jafnframt fór hann í MBA-nám í viðskiptafræði. „Þetta var boð sem ég gat ekki hafnað. Ég fór vestur sumarið 2014 og lauk náminu í ágúst 2015. Í kjölfarið vann ég í ár hjá fyrirtæki í Suður-Karolínu þar sem ég hafði tekið hluta af starfsnámi mínu. Starfið fólst í því að greina fræðsluþörf og þjálfa leiðtoga innan fyrirtækja til þess að ná betri árangri í starfi,“ rifjar Kjartan upp.

Til Íslands flutti Kjartan snemma árs 2016 og hóf störf sama ár sem viðskiptastjóri hjá Eimskip og var verksviðið fyrst og fremst innflutningur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Unnusta Kjartans er frá Akureyri og úr varð að í apríl á síðasta ári fékk Kjartan sig fluttan norður yfir heiðar og hélt áfram starfi sínu hjá Eimskip frá starfsstöð fyrirtækisins á Akureyri, þar til um síðustu áramót er hann hóf störf hjá SÍMEY.

„Mér líst mjög vel á þetta verkefni hjá SÍMEY sem í stórum dráttum felst í því að auka hæfni fólks sem starfar í ferðaþjónustu og jafnframt að bæta upplifun ferðmanna, þeirra sem kaupa þjónustuna af ferðaþjónstufyrirtækjunum. Ég mun starfa náið með Hildi Bettý Kristjánsdóttur hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar að þessu verkefni, við erum þegar byrjuð að heimsækja ferðaþjónstufyrirtæki á svæðinu og það verður í mörg horn að líta á næstunni. Sterkasti grunnur hvers fyrirtækis er gott fólk og okkar verkefni lýtur að því að hjálpa atvinnugreininni að ná fram því besta í hverjum starfsmanni,“ segir Kjartan Sigurðsson.