Kristján Sturluson hóf í byrjun apríl störf sem verkefnastjóri hjá SÍMEY. Í því felst m.a. miðlun upplýsinga um starfsemi SÍMEY, fyrirtækjaþjónusta, ráðgjöf um nám og starfsþróun og skipulagning af ýmsum toga.
Kristján er Akureyringur í húð og hár. Hann lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri 2001 og síðan BA-prófi í sálfræði í Háskólanum á Akureyri árið 2007. Tveimur árum síðar lauk Kristján kennsluréttindanámi í sama skóla, sem gefur réttindi til kennslu í grunn- og framhaldsskólum. Og núna á vordögum lýkur Kristján diplómanámi á meistarastiig í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun Háskóla Íslands.
Árið 2009 hóf Kristján störf á rannsóknasviði Capacent á Akureyri – síðar Gallup á Íslandi – og vann þar uns hann hóf störf hjá SÍMEY fyrir nokkrum vikum.
„Tíminn hjá Capacent/Gallup var einstaklega góður og gefandi en það er gott að breyta til og þegar ég sá þetta starf auglýst í vetur ákvað ég að sækja um. Þetta nýja starf gefur aukna möguleika á mannlegum samskiptum og það hugnast mér vel. Mér líst afar vel á starfið og vinnustaðinn, þetta verður í senn skemmtilegt, fjölbreytt og krefjandi. Okkar starf felst hér eftir sem hingað til í því að vinna fyrir fólk, fyrirtæki og stofnanir á svæðinu,“ segir Kristján Sturluson.