Næstkomandi föstudag, 28. apríl, verður kynningarfundur á raunfærnimati fyrir sjómenn kl. 10:00-11:00 í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg. Fyrst og fremst verður á fundinum, sem er öllum áhugasömum opinn, leitast við að varpa ljósi á hvað felst í raunfærnimati.
Í sem stystu máli snýst raunfærnimat um að viðkomandi einstaklingur fá viðurkennda færni sína og reynslu, oft og tíðum með starfi sínu um árabil, án þess að hafa af einhverjum ástæðum lokið námi í viðkomandi fagi. Með öðrum orðum er með raunfærnimati verið að kortleggja færni og auka möguleika viðkomandi til þess að bæta við sig í námi eða annarri uppbyggingu. Möguleikarnir eru óendanlega margir.
Þeir sjómenn sem hafa starfað til sjós að lágmarki í þrjú ár og eru 23ja ára og eldri geta gengist undir raunfærnimat. Raunfærnimatið er bæði opið starfandi sjómönnum og einnig sjómönnum sem áður hafa verið til sjós – að lágmarki í þrjú ár - en eru það ekki lengur.
Sjá bækling um raunfærnimat á íslensku. Og hér er myndband um raunfærnimatið.
Fjölmargir hafa farið í gegnum raunfærnimat – úr ólíkum geirum atvinnulífsins – og almennt má segja að það hafi gefið mjög góða raun.
Með kynningarfundinum nk. föstudag á Akureyri vill SÍMEY vekja sérstaklega athygli á raunfærnimati fyrir sjómenn. Annar sambærilegur fundur fyrir sjómenn við utanverðan Eyjafjörð verður á Dalvík föstudaginn 12. maí kl. 10:00-11:00.