Í dag lauk með formlegum hætti í húsnæði málmiðnaðardeildar VMA námskeiði í málmsmíði svokallaðri TIG-suðu, sem SÍMEY stendur fyrir í samstarfi við Verkmenntaskólann. Tíu luku námskeiðinu. Fyrir jól var annað námskeið í Mig/Mag suðu og þriðja námskeiðið í vetur hefst 4. apríl nk. þegar aðrir tíu nemendur fá einnig fræðslu í TIG-suðu. Námskeiðið er ítarlegt, í það heila eru kennt í 80 klukkustundir, sem samsvarar 120 kennslustundum og gefur það tíu einingar í framhaldsskóla. Kennarar á námskeiðinu voru Stefán Finnbogason og Kristján Kristinsson, kennarar við málmiðnaðarbraut VMA. Á námskeiðinu smíðuðu þátttakendur lítil ferðagrill, sem koma til með að nýtast vel í sumar.
Valgeir Magnússon, verkefnastjóri hjá SÍMEY, ávarpaði þátttakendur á námskeiðinu og afhenti þátttakendum skírteini til staðfestingar á því að þeir hefðu lokið námskeiðinu. Hann sagði greinilegt að mikill áhugi væri á slíkum verklegum smiðjum og því bæri að fagna. Til marks um það færi eftir páska af stað annað námskeið í TIG-suðu, aldrei áður hefðu tvö slík fullbókuð námskeið verið í boði á sömu önninni. Hann sagðist vænta þess að unnt yrði að bjóða upp á námskeið í pinnasuðu á haustönn.
Sem fyrr segir luku tíu málmsuðunámskeiðinu í dag þar af níu karlar og ein kona Arnbjörg Jóhannsdóttir, kennari og hjúkrunarfræðingur í Kvistási í Eyjafjarðarsveit. Um þessar mundir starfar hún reyndar ekki hvorki sem hjúkrunarfræðingur né kennari heldur starfar hún í fjölskyldufyrirtækinu, sem er verktakafyrirtækið Tývar ehf.
Mig hefur lengi langað til þess að afla mér þekkingar á þessu sviði. Síðastliðið haust sá ég auglýst námskeið í Mig/Mag suðu og ákvað þá að fara langt út fyrir þægindarammann minn og stökkva út í djúpu laugina. Mér fannst óskaplega gaman að glíma við þetta og því ákvað ég að halda áfram og taka TIG-suðuna og núna bíð ég eftir því að taka pinnasuðuna. Bæði er þetta til gamans gert og einnig get ég nýtt mér þessa þekkingu á verkstæðinu heima. Ég hef alltaf haft gaman af handavinnu og hverskyns handverki og það má segja að þetta sé aðeins annar póll í handverki. Ég sé líka fyrir mér að geta nýtt mér þetta í að búa til ýmsa hluti sem mig hefur lengi langað til að gera. Reyndar hefur þetta kveikt í mér að læra meira á þessu sviði, þetta hefur til dæmis vakið áhuga minn á því að læra að nota rennibekkina hér. Aðstaðan hér í VMA er frábær og það er einstakt tækifæri að fá að nýta þessa aðstöðu og njóta tilsagnar þessara reynslumiklu og fróðu kennara sem hafa báðir mikla kennslureynslu og reynslu úr atvinnulífinu. Og það er gaman að segja frá því að þeir hafa kennt báðum strákunum mínum hérna. Annar var hér í bifvélavirkjun og hinn tók pinnasuðunámskeið og fór síðan í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY, segir Arnbjörg.