Um margt eru líkindi með uppbyggingu í ferðaþjónustu á Íslandi og í Skotlandi. Í báðum löndum er m.a. lögð áhersla á svokallaða náttúruferðamennsku þar sem náttúruupplifun ferðamannsins er í öndvegi. Í Skotlandi á þetta ekki síst við um norðurhluta landsins.
Í byrjun október fór hópur frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, nýsköpunar- og atvinnuvegaráðuneytinu auk fjögurra fulltrúa símenntunarstöðva (SÍMEY, Mímir-símenntun, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi) – samtals 13 manna sendinefnd – til Skotlands til þess að kynna sér fræðslu og þjálfun starfsfólks í ferðaþjónustu, en það er einmitt það sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar hafa verið að vinna að hér á landi síðustu misseri. Helgi Þorbjörn Svavarsson, verkefnastjóri í SÍMEY, var einn þeirra sem fór til Skotlands. Hann segir að almennt séu Skotar komnir lengra í fræðslu og þjálfun fólks í ferðaþjónustunni en hér á landi enda atvinnugreinin eldri og þróaðri í Skotlandi en hér. Hins vegar glími Skotar við ekki ósvipaða hluti og þekkist vel hér á landi, þar sé t.d. tilfinnanlegur skortur á fagmenntuðu matreiðslufólki og erfitt hefur reynst að manna störf í greininni í Skotlandi, rétt eins og hér, með heimafólki. Því sé það sama uppi á teningnum í Skotlandi og hér á landi að erlendir starfsmenn séu áberandi í störfum í ferðaþjónustu. Þess vegna sé stóra áhyggjuefni ferðaþjónustunnar í Skotlandi um þessar mundir viðræður Breta við Evrópusambandið um útgöngu – Brexit. Greinilega hafi Skotar af þessu miklar áhyggjur og hver áhrifin gætu orðið við útgönguna, t.d. gagnvart mönnun starfa í ferðaþjónustunni. Sömuleiðis segir Helgi að eins og hér sé töluverð umræða um gistináttagjöld í Skotlandi, uppi séu hugmyndir um það í Edinborg að hækka þar gistináttagjöld og nýta fjármunina til uppbyggingar innviða. „Almennt finnst mér margt líkt með ferðaþjónustunni hér á landi og í Norður-Skotlandi. Þar er áherslan á náttúruferðamennsku og mörg fyrirtæki eru lítil einyrkjafyrirtæki, rétt eins og við þekkjum hér,“ segir Helgi Þorbjörn og bætir við að það sem hópurinn sá og fræddist um varðandi fræðslu- og þjálfun starfsfólks í ferðaþjónustu í Skotlandi nýtist mjög vel hér á landi. Mikilvægt sé að sjá hvernig hlutirnir séu unnir í öðrum löndum, af því megi alltaf eitthvað læra og nýta hér til eflingar samstarfs fræðsluaðila og fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Meðal annars var farið í heimsókn í Tennents Training Academy í Glasgow og Apex hótel í Edinborg og fræðst um samstarf atvinnulífs og skóla um menntun og þjálfun í hótel- og veitingageiranum. Einnig voru heimsóttir skólar sem heyra til University of the Highlands and Islands, annars vegar hótel- og veitingadeildin í Perth College og hins vegar rannsóknasetrið við West Highland College. University of the Highlands and Islands hefur m.a. verið í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði og Rannsóknasetur ferðamála á Akureyri í verkefninu Saint Project.