Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálamálaráðherra heimsótti námsver SÍMEY á Dalvík á Degi íslenskrar tungu og kynnti sér þá fjölbreyttu starfsemi sem þar fer fram.
Eins og fram hefur komið afhenti mennta- og menningarmálaráðherra Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á hátíðarsamkomu í Bergi á Dalvík á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember sl.
Í þessari heimsókn ráðherra í sinn gamla heimabæ kynnti hann sér menningar- og skólastofnanir í Dalvíkurbyggð og sótti m.a. heim námsver SÍMEY á jarðhæð Víkurrastar þar sem Tónlistarskólinn á Tröllaskaga er einnig til húsa.
Lengi hefur verið farsælt samstarf milli Dalvíkurbyggðar og SÍMEY um rekstur námsvers á Dalvík og með flutningi þess í nýtt húsnæði núna á haustdögum er það á margan hátt sýnilegra og aðgengilegra en áður. Dalvíkurbyggð leggur til húsnæði námsversins en SÍMEY annast starfsemina.
Starfsemin á Dalvík er fjölbreytt. Nefna má raunfærnimat í sjávarútvegi, fisktækninám í samstarfi við Menntaskólann á Tröllaskaga og íslenskunám fyrir útlendinga, svo nokkur dæmi séu tekin.
Mennta- og menningarmálaráðherra þekkir bærilega vel til kennslu því hann kenndi á sínum tíma í stýrimannadeildinni á Dalvík og Dalvíkurskóla. Kristján Þór er menntaður stýrimaður og vann sem stýrimaður og skipstjóri áður en hann hellti sér í sveitarstjórnarstjórnmálin og síðar landsmálin. Einnig lærði hann íslensku og almennar bókmenntir í HÍ og stundaði þar sömuleiðis nám til kennsluréttinda.
Ráðherra er þökkuð heimsóknin í námsver SÍMEY á Dalvík.