Aðsókn á fyrstu námskeiðin í FAB-Lab smiðjunni, sem er í húsakynnum Verkmenntaskólans á Akureyri, hefur farið fram úr öllum vonum. Fyrsta námskeiðið hófst í síðustu viku og nú þegar er fullbókað á næsta námskeið sem hefst 28. febrúar nk. Ekki er unnt að bæta við fleiri námskeiðum fram á vorið því hvert námkeið er 80 klukkustundir og lýkur námskeiðinu sem hefst 28. febrúar um miðjan maí. Nú þegar er farið að skrá niður fyrirspurnir á námskeið næsta haust. Á námskeiðunum kenna Helga Jónasardóttir, vöruhönnuður og kennari við listnámsbraut VMA, Halldór Grétar Svansson, þrívíddarhönnuður og Ólafur Pálmi Guðnason, sem kennir þrívíddarforritun.
Föstudaginn 3. febrúar sl. var boðið til kaffisamsætis í FAB-Lab smiðjunni þar sem voru m.a. fulltrúar rekstraraðila smiðjunnar og þeirra fyrirtækja sem fjárhagslega hafa lagt henni lið við kaup á tækjabúnaði.
Að FAB-Lab smiðjunni hafa staðið frá upphafi VMA, SÍMEY, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Akureyrarbær. Auk þess leggur Eyjafjarðarsveit smiðjunni til rekstrarframlag. Stofnsamningur um smiðjuna tekur til áranna 2016 til 2018.
FAB-Lab smiðjan er ágætlega tækjum búin. Norðurorka lagði smiðjunni til myndarlega fjárupphæð til tækjakaupa. Einnig lögðu tækjakaupum lið KEA, SS Byggir, Höldur og Byggiðn – stéttarfélag.
Fyrri part dags – til kl. 16 – nýta skólar á svæðinu smiðjuna en seinnipart dags eru þar námskeið á vegum SÍMEY og almenningur fær einnig aðgang að smiðjunni.
Á FB-síðu smiðjunnar verður hægt að fylgjast með starfseminni og einnig verður settur upp sameiginlegur Snapchat-reikningur fyrir allar sjö FAB-Lab smiðjur landsins.
Næstkomandi föstudaga, 17. febrúar, verður opið hús fyrir almenning í FAB-Lab smiðjunni í VMA, þar sem allir áhugasamir geta komið og kynnt sér starfsemina.