Núna á vorönn bauð SÍMEY í fyrsta skipti upp á nám sem ber yfirskriftina Skólasmiðja og er 100 klukkustunda nám ætlað fólki af erlendum uppruna sem hefur hug á því að starfa í blönduðum störfum – t.d. sem stuðningsfulltrúar eða skólaliðar – í leik- og grunnskólum. Námið var kennt á rússnesku og var bróðurpartur nemenda frá Úkraínu.
Skólasmiðjan hófst síðla vorannar og skiptist hún í 40 klst íslenskunám og 40 klst fagtengdan hluta sem inniheldur ýmiss konar hagnýta fræðslu tengda börnum og skólastarfi á Íslandi auk námskeiðs í skyndihjálp. Þar að auki var 20 klst vettvangsnám í leik og grunnskólum.
Tveir rússneskumælandi kennarar skiptu með sér kennslunni. Níu nemendur luku náminu og voru formlega brautskráðir 14. júní sl.
Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir, verkefnastjóri í SÍMEY, vill koma á framfæri bestu þökkum til þeirra leik- og grunnskóla sem lögðu náminu lið með því að bjóða nemendum í vettvangsheimsóknir og kynna fyrir þeim starf skólanna. Sigurlaug segir að einstaklega vel og faglega hafi verið tekið á móti nemendum í þessum heimsóknum og það beri að þakka alveg sérstaklega.
Ánægjulegt er frá því að segja að nú þegar hefur hluti nemendahópsins verið ráðinn til starfa í leik- og grunnskólum.
Sem fyrr segir var þetta nám nú í fyrsta skipti í boði í SÍMEY en áður hefur Framvegis – miðstöð símenntunar í Reykjavík boðið upp á það. Í raun er hér um að ræða tvær formlegar vottaðar námsleiðir – annars vegar Grunnnám skólaliða og hins vegar Skref til sjálfshjálpar í lestri og ritun – sem hefur verið steypt saman í Skólasmiðjuna.
Sigurlaug segir að mjög vel hafi tekist til og hún segir líkur til þess að þetta nám verði aftur í boði í SÍMEY í haust á rússnesku og einnig telur hún grundvöll fyrir því að bjóða einnig upp á það á spænsku og ensku fyrir blandaða hópa.