„Ég mun taka mikið með mér úr þessu námi. Tölvukunnáttan hefur aukist til mikilla muna, gerð auglýsinga er mikið markvissari en áður, markaðsfræðin gerði mjög mikið fyrir mig og kenndi mér að nýta samfélagsmiðla og auglýsingasíður mun betur. Áföll síðustu ára höfðu mikil neikvæð áhrif á sjálfstraust mitt. Nám í sölumennsku hefur bætt sjálfstraustið og það hefur eflst til mikilla muna með því að þurfa að koma fram eins og að kynna verkefnið sem ég vann að í vetur og mér líður mun betur með sjálfan mig eftir veturinn. Já, Símey hefur gert mig öflugri út í lífið en áður en ég hóf nám. Að standa hér og tala er eitthvað sem ég hélt að ég myndi aldrei gera. Já, það er allt hægt.“
Þetta sagði Gísli Gunnar Oddgeirsson í ávarpi sem hann flutti við útskrift SÍMEY sl. fimmtudag en hann var einn þeirra sem útskrifuðust úr sölu-, markaðs-, og rekstrarnámi.
Gísli Gunnar er fæddur og uppalinn á Grenivík og býr þar. Ungur að árum hóf hann sjómennsku og var háseti í átta ár. Yfir sumarmánuðina starfaði hann einnig í umbúðavinnslu, verslun og fiskvinnslu í landi. Árið 1995 lá leiðin í Stýrimannaskólann í Reykjavík og útskrifaðist Gísli Gunnar þaðan árið 1997. Eftir námið var hann stýrimaður í 4 ár og loks skipstjóri til 10 ára.
Frá árinu 1995, samhliða sjómennskunni, var Gísli Gunnar viðloðandi gisti- og veitingarekstur á Grenivík. Ásamt foreldrum og systkinum stofnaði hann gistiþjónustu í Miðgörðum, elsta húsi Grenivíkur, sem afi hans og amma í móðurætt byggðu árið 1914. Um tíma var þar lítill veitingastaður, bar og kaffihús.
Gísli Gunnar var upphafsmaður bæjarhátíðarinnar Grenivíkurgleði og var framkvæmdastjóri hennar frá 2003 til þeirrar síðustu sem haldin var árið 2017. Í dag er hann framkvæmdastjóri Íþróttafélagsins Magna og hefur sinnt ýmsum störfum fyrir félagið síðan 2008.
Gísli Gunnar rakti í ávarpi sínu við brautskráninguna að árið 2011 hafi orðið straumhvörf í hans lífi þegar hann greindist með krabbamein. Hann fór í aðgerð sem tókst vel. Eftir átta mánaða fjarveru eftir aðgerð fór Gísli Gunnar sem háseti á uppsjávarskipið Hákon EA þar til árið 2014 er hann varð fyrir slysi um borð þegar var verið að kasta síldartrollinu. Brjóstbak og háls skaddaðist það illa að síðan hefur Gísli Gunnar verið öryrki. Í millitíðinni, árið 2013, hafði hann fengið hjartaáfall en komst yfir það.
„Ég hef alla tíð haft gaman af sölu og markaðsmálum. Fyrir tveimur árum þegar útséð var um að ég færi aftur á sjóinn eftir slysið og að ég gæti engan veginn unnið hefðbundin störf langaði mig að finna mér eitthvert gæluverkefni svo að ég myndi ekki breytast í sófakartöflu heima. Ásamt félaga mínum keypti ég lítið kósý hús á Grenivík og við hófum að selja gistingu í febrúar 2018. Verkefnið sem ég vann að í náminu í vetur fjallar um fyrirtækið Velli Grenivík ehf – „a home with a view“, sem stofnað var í ágúst 2018. Um er að ræða gistihúsaþjónustu á Grenivík í húsinu Völlum sem staðsett er við sjávarbakkann og er megintilgangur fyrirtækisins að selja ferðamönnum gistingu á rólegum og fallegum stað þar sem þemað er „þar sem vegurinn endar“,“ sagði Gísli Gunnar.
Í VIRK starfsendurhæfingu segist Gísli Gunnar hafa fengið upplýsingar um að sölu-, markaðs-, og rekstrarnám væri kennt í SÍMEY og þá hafi ekki verið aftur snúið. Hann segist viðurkenna að 22 árum eftir að hann lauk Stýrimannaskólanum í Reykjavík hafi honum fundist nokkuð stórt verkefni að setjast aftur á skólabekk, „en eftir einungis eina viku hér á skólabekk fann ég að ég væri á mögnuðum stað,“ sagði Gísli Gunnar og lagði áherslu á orð sín. Hann segir kennsluna hafa verið frábæra og viðmót starfsfólks SÍMEY fyrsta flokks. Og til þess að setja punktinn yfir i-ið hafi hópurinn sem stundaði námið náð gríðarlega vel saman og sterk vináttubönd hafi skapast sem eigi eftir að haldast.
Niðurstaða Gísla Gunnars er sú að sölu-, markaðs- og rekstrarnámið muni nýtast honum afar vel í þeim verkefnum sem framundan séu á Grenivík, í gistiþjónustunni og framkvæmdastjórn Íþróttafélagsins Magna. Hann sagði að SÍMEY hafi gert mikið fyrir sig og hvetur hann alla sem hafa íhugað að taka skrefið yfir þröskuldinn í SÍMEY að láta verða að því, þar sé fjölbreytt og gott nám í boði og allir starfsmenn séu boðnir og búnir að efla og styðja nemendur.