Fyrir um tveimur árum var ýtt úr vör verkefninu Sjósókn sem að stóð starfsmenntasjóðurinn Sjómennt og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins í samvinnu við Iðuna fræðslusetur og fjórar símenntunarstöðvar, þar á meðal SÍMEY. Verkefnið var fyrst og fremst fólgið í því að bjóða starfandi sjómönnum sem ekki höfðu lokið framhaldsskóla upp á raunfærnimat í ýmsum greinum sem tengjast sjávarútveginum, námskeið í fiskvinnslu og námsleiðina Menntastoðir. Horft var til þess að starfandi sjómenn gætu fengið yfirgripsmikla reynslu og þekkingu metna inn í námið, gætu stundað nám samhliða vinnu, fengið ráðgjöf um hvaða leiðir væru færar fyrir þá um námsval og síðast en ekki síst orðið hæfari starfsmenn.
Valgeir B. Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY segir að um hafi verið að ræða ákveðið tilraunaverkefni og hafi SÍMEY haft ákveðið frumkvæði í málinu samkvæmt samningi við Sjómennt. Verkefnið hafi tvímælalaust skilað góðum árangri og sýnt fram á mikilvægi þess að gefa sjómönnum kost á að víkka út sjóndeildarhringinn og um leið að veita þeim upplýsingar um þá kosti sem bjóðist nú til dags, á tímum æ betri fjarskipta. Fyrir nokkrum árum hafi nám sjómanna jafnhliða sjómennsku ekki verið auðvelt vegna þess að flotinn hafi ekki verið í góðu netsambandi og afar kostnaðarsamt hafi verið að nýta sér netsamskipti. Þetta hafi hins vegar breyst mjög til batnaðar og um leið opnað á æ fleiri möguleika sjómanna til menntunar.
Valgeir segir að nú þegar þessum fyrsta áfanga verkefnisins sé lokið sé nú verið að hefja annan áfanga þess, sem af hálfu SÍMEY felist fyrst og fremst í því að vera í sambandi við aðrar símenntunarstöðvar og tala fyrir þessu verkefni. Jafnframt að bjóða fram ráðgjöf og kynningarefni sem geti nýst símenntunarmiðstöðvunum við næstu skref. Nú þegar segir Valgeir að mikill áhugi sé á að bjóða sjómönnum annars vegar hjá Ísfélaginu á Þórshöfn og hins vegar Síldarvinnslunni í Neskaupstað upp á raunfærnimat. Að þessu verði unnið á næstunni.
„Við höfum þegar séð og vitum að fyrir marga sjómenn er töluvert átak að komast yfir þann þröskuld að nýta sér þann kost að fara í raunfærnimat og fá þannig metna all þá miklu starfsreynslu sem þeir búa yfir. Síðan þegar komið er yfir þröskuldinn er það okkar reynsla að í flestum tilfellum opnist sjómönnum nýr og áður óþekktur heimur. Okkar verkefni á næstunni verður að tala fyrir raunfærnimati fyrir sjómenn og í því skyni verðum við í sambandi við aðrar símenntunarmiðstöðvar,“ segir Valgeir B. Magnússon.