Náms- og starfsráðgjafar veita mikilvæga þjónustu á símenntunarmiðstöðvum um land allt. Oft eru þeir fyrstu aðilarnir sem fólk hittir þegar það stendur frammi fyrir breytingum á náms- og starfsferli. Fyrstu skrefin geta verið flókin, náms- og starfsráðgjafar aðstoða fólk við að finna taktinn en þeir eru einmitt sérfræðingar í að leiðbeina fólki við starfsþróun og breytingar á náms- og starfsferli.
Fjölbreytt verkefni
Verkefni náms- og starfsráðgjafa eru af ýmsum toga. Við sinnum einstaklings- og hópráðgjöf, eigum viðtöl t.d. við námsmenn á námsleiðum símenntunarmiðstöðva, atvinnuleitendur og fólk sem kemur inn af götunni. Þetta eru einstaklingar á öllum aldri, kyni og þjóðerni en stærstur hluti á sér þann samnefnara að hafa ekki lokið námi í framhaldsskóla. Við erum því að vinna með brotthvarfsnemendur sem eru mikið í umræðunni. Engin tvö viðtöl eru eins, enda aðstæður fólks og verkefnin sem það stendur frammi fyrir mismunandi. Þeim fer fjölgandi sem nýta sér þessa þjónustu símenntunarmiðstöðvanna og rétt er að undirstrika að hún er endurgjaldslaus fyrir 20 ára og eldri sem ekki hafa útskrifast úr framhaldsskóla. Við tökum einnig þátt í raunfærnimati, leiðbeinum um vinnubrögð, ferilskrárgerð og fleira á námsleiðum og námskeiðum og tökum þátt í alls kyns þróunarverkefnum svo fátt eitt sé talið.
Trú á eigin getu
Trú á eigin getu er eitt af þeim atriðum sem við vinnum mikið með. Við skoðum gildi og hvað skiptir hvern einstakling mestu máli í lífinu. Við hvetjum fólk til að leggjast í sjálfskoðun og finna út frá henni hvaða leið hentar því best. Við leggjum áherslu á að rætur hvers og eins liggi í gildum, áhuga og styrkleikum í samspili við allt hans umhverfi, út frá þessu öllu þróast náms- og starfsferill.
Dæmi um einstakling sem kemur til náms- og starfsráðgafa er sá sem hefur lengi velt fyrir sér að setjast á skólabekk eftir jafnvel áratuga langt hlé frá námi. Fólk hættir af ýmsum ástæðum í framhaldsskóla eða byrjar aldrei en hefur kannski innst inni löngun til þess að fara í nám og styrkja sig á vinnumarkaði. Margir finna sér farveg í einhverjum af fjölmörgum spennandi námsleiðum eða raunfærnimati símenntunarmiðstöðvanna. Í upphafi er sjálfstraust þessa fólks oft ekki mikið en með ólíkindum er hversu fljótt hlutirnir breytast þegar fólk er komið af stað í námi eða raunfærnimati og gildir þá einu af hvaða toga það er.
Það er okkur alltaf jafn mikið gleðiefni að sjá fólk bera höfuðið hátt á brautskráningardegi sem hafði komið hikandi í fyrsta viðtal til okkar náms- og starfsráðgjafanna, jafnvel á vissan hátt hrætt en þó fyrst og fremst með takmarkaða trú á eigin getu. Brautskráning er staðfesting á því að einstaklingur hafi lokið merkum áfanga. En hún er ekki síður mikilvæg staðfesting á því að þröskuldurinn sem viðkomandi hafði stigið hikandi yfir í upphafi hefur verið rækilega yfirstiginn. Þessi gleðistund er ósegjanlega mikilvæg og til þess fallin að efla fólk á allan hátt.
Mat á raunfærni fólks
Sem fyrr segir koma náms- og starfsráðgjafar að raunfærnimati. Það ferli hefst með viðtölum þar sem leitast er við að draga saman þá færni sem fólk býr yfir úr skóla og vinnu. Við fylgjum síðan fólki í gegnum matsferlið, veitum stuðning og aðstoðum við að skrá færni. Að matsferlinu loknu gerum við fólki grein fyrir þeim möguleikum sem eru fyrir hendi í framhaldinu, hvort sem er í námi eða starfi. Oft verður fólk undrandi að sjá svart á hvítu hversu mikilli færni það býr yfir og að það hafi lært heilmikið þó svo það hafi ekki verið innan veggja skólans.
Ef til vill er hugtakið raunfærnimat ekki nógu lýsandi og margir eiga erfitt með að tengja sig við það. Í sem stystu máli snýst það um að fólk fær viðurkenningu á færni sinni og geti nýtt hana til styttingar á námi, til framgangs í starfi eða að finna starf við hæfi.
Breyttur vinnumarkaður þýðir breytingar hjá einstaklingum
Til okkar leitar oft fólk sem hefur áhuga á að breyta til eftir langan tíma í sama starfi. Staðreyndin er sú að vinnumarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Algengt var að fólk lærði til ákveðins starfs sem það síðan gegndi bróðurpartinn úr sinni starfsævi. Þessu er öðruvísi háttað í dag. Nú staldrar fólk skemur í hverju starfi, það er opnara fyrir því að skoða nýja leið á vinnumarkaði eða sækja sér aukna þekkingu í skemmra eða lengra námi.
Eitt af því sem við gerum er að skipuleggja námskeið fyrir atvinnuleitendur í samstarfi við Vinnumálastofnun. Við tökum viðtöl við þátttakendur þar sem til dæmis áhugasvið fólks er greint í því skyni að beina atvinnuleitinni í réttan farveg. Einnig fær fólk stuðning við að átta sig á hvaða færni og styrkleikum það býr yfir, í kjölfarið eru útbúnar góðar ferilskrár til þess að auka líkur á að starfsleit beri árangur og fólk styrkist á vinnumarkaði. Við náms- og starfsráðgjafar segjum ekki fólki að fara ákveðna leið í námi eða í starfi, heldur hvetjum við fólk til að taka ábyrgð og ákvarðanir á eigin starfsferli og þróun.
Jákvæð áhrif á brotthvarf
Við gleðjumst yfir því á degi hverjum að sjá árangur af starfi okkar. Hjá Framvegis er augljóst að eftir að náms- og starfsráðgjafar hófu störf hefur brotthvarf af námsleiðum minnkað. Nemendur fá það utanumhald og stuðning sem þeir þurfa auk aðstoðar við að yfirstíga ýmiskonar hindranir í náminu. Nándin á símenntunarmiðstöðvunum er mikil og boðleiðirnar stuttar og fólk hefur greiðan aðgang að þjónustunni.
Þeir sem til okkar leita hafa sumir hverjir beðið skipbrot í námi eða starfi og því skiptir miklu máli að fólk upplifi sig sem sigurvera við lok hvers áfanga. Það sem er mikilvægast þegar upp er staðið er að hver og einn einstaklingur sé sáttur við þá leið sem hann velur sér.
Höfundar eru náms- og starfsráðgjafar hjá Framvegis – miðstöð símenntunar í Reykjavík, sem á aðild að Kvasi - samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva. Greinin birtist fyrst á Vísi.is 4. apríl 2018.