Núna á vordögum mun SÍMEY bjóða upp á fyrstu námskeiðin í tæknilæsi fyrir sextíu ára og eldri. Námskeiðin, sem eru kostuð af félags- og vinnumálaráðuneytinu og verða þátttakendum því að kostnaðarlausu, eru liður í átaki ráðuneytisins um eflingu tæknilæsis fólks sextíu ára og eldra um allt land.
Í desember sl. efndi félags og vinnumálaráðuneytið til útboðs um skipulagningu og umsjón með þessum námskeiðum í hverjum landsfjórðungi. Á Norðausturlandi er Þekkingarmiðstöð Þingeyinga ábyrgðaraðili með verkefninu og vinnur það í samstarfi við SÍMEY. Þekkingarmiðstöðin verður með námskeiðin í Þingeyjarsýslunum en SÍMEY heldur utan um námskeiðin í Eyjafirði. Sif Jóhannesdóttir verkefnastjóri hjá SÍMEY segir að þessa dagana sé unnið að því að kynna þessi námskeið og ætlunin sé að þau fyrstu verði í maí. Síðan verði þráðurinn tekinn aftur upp í haust. Ætlunin er að halda námskeiðin á öllu starfssvæði SÍMEY – í þéttbýli og til sveita. Kennari á námskeiðunum verður Snæbjörn Sigurðsson.
Tæknilæsi fólks er mismunandi. Þessum námskeiðum er ætlað að auka þekkingu fólks á efri árum í notkun nútíma tæknilausna.
Auk almennrar tölvunotkunar verður kennd notkun snjalltækja (síma og spjaldtölva), fjallað um rafræn skilríki og notkun þeirra, rafræn samskipti (tölvupóstur og notkun annarra samskiptamiðla), netverslun, notkun heimabanka o.fl.
Hvert námskeið verður átta klukkustundir í staðnámi og verða kennd á tveimur vikum í fjórum tveggja klukkustunda lotum. Kennslan verður einstaklingsmiðuð, á hverju námskeiði verða að hámarki átta manns.
SÍMEY veitir allar upplýsingar. Skráning á simey.is og hac.is.