Námskeið um heilsueflingu fyrir starfsfólk grunnskóla Akureyrarbæjar

Nokkrir af þátttakendum á námskeiði Rafns um heilsueflingu í SÍMEY í dag.
Nokkrir af þátttakendum á námskeiði Rafns um heilsueflingu í SÍMEY í dag.

Undanfarin ár hefur SÍMEY átt gott samstarf við fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar og starfsmenntasjóðina Sveitamennt og Mannauðssjóð Kjalar um fræðsluverkefni fyrir grunnskóla Akureyrarbæjar. Á haustdögum 2023 var undirritaður samningur um Fræðslustjóra að láni varðandi áframhaldandi samstarf við fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar, Sveitamennt og Mannauðssjóð Kjalar.

Í þessu verkefni var unnin þarfagreining innan skólanna út frá hugmyndafræði Markviss. Þarfagreiningin tók til starfsfólks grunnskólanna sem starfar samkvæmt kjarasamningum Einingar-Iðju og Kjalar við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Starfagreining var lögð fyrir og tekin rýnihópaviðtöl.

Myndaður var átta manna stýrihópur og voru í honum sex starfsmenn grunnskóla, aðrir en kennarar, einn skólastjóri og einn starfsmaður frá fræðslu- og lýðheilsusviði Akureyrarbæjar. Sérstaklega var hugað að því að í hópnum væru starfsmenn frá sem flestum grunnskólum og fulltrúar úr hópi ritara, húsumsjónarmanna, matráða, skólaliða og stuðningsfulltrúa. 

Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi, sem hélt utan um verkefnið af hálfu SÍMEY, segir að þessi vinna hafi gengið ljómandi vel og þakka beri áhugasömum og virkum stýrihópi starfsmanna hversu vel hafi tekist til. Gagnlegar umræður hafi orðið á fundum stýrihópsins sem hafi gefið bæði gagnlegar og viðamiklar upplýsingar um hvað beri að leggja áherslu á varðandi fræðslu og önnur úrbótamál. 

Niðurstöður starfagreiningar sýndu hvaða áherslu bæri að leggja í fræðslumálum til að efla starfsfólk enn frekar í sínum störfum og jafnframt fengust gagnlegar upplýsingar í rýnihópasamtölum um fræðsluþarfir í einstaka starfahópa. Út frá niðurstöðunum vann stýrihópurinn að fræðsluáætlun til þriggja ára, sem endurspeglar niðurstöður í vali starfsmanna á fræðsluverkefnum næstu þrjú árin.

„Þetta verkefni hefur gefið viðamiklar upplýsingar um hvað leggja ber áherslu á í fræðslumálum innan grunnskóla Akureyrar. Næstu annir munu grunnskólarnir, í samvinnu við SÍMEY og aðra fræðsluaðila, vinna að því að þjálfa og fræða starfsmenn og bjóða þeim upp á fræðslu sem skólarnir og starfsmenn eru að leita eftir,“ segir Ingunn Helga Bjarnadóttir. 

Fyrstu skrefin samkvæmt þessari fræðsluáætlun eru tekin núna í skólabyrjun grunnskólanna á Akureyri. Í gær og í dag hefur starfsfólk skólanna sótt námskeiðið 360 gráðu heilsa í SÍMEY þar sem Rafn Franklín Johnson heilsuráðgjafi fer yfir hvernig fólk geti eflt heilsu sína.

Þessar myndir voru teknar á námskeiði í SÍMEY í dag þegar Rafn miðlaði þekkingu sinni og fróðleik til starfsfólks Hlíðarskóla, grunnskólans í Hrísey og Síðuskóla.