Á morgun, laugardaginn 30. mars, kl. 14:00 verður opnuð sýning í húsakynnum SÍMEY á verkum nemenda í tveimur myndlistarsmiðjum í samstarfi við Listfræðsluna sem lauk í þessari viku, annars vegar 80 klukkustunda smiðja í málun þar sem kennd hafa verið grunnatriðin í listmálun og hins vegar 200 klukkustunda smiðja sem ber nafnið Fræðsla í formi og lit, þar sem nemendur hafa styrkt færni sína í myndlist, listasögu og skapandi starfi. Sem fyrr hafa tveir kennarar kennt nemendum í þessum smiðjum, Bryndís Arnardóttir – Billa og Guðmundur Ármann Sigurjónsson.
Í smiðju í málun er farið í hugmyndavinnu, útfærslu og grunnatriði listmálunar. Áhersla er lögð á að þjálfa litaskyn með litafræðiformúlum og tengja umhverfinu. Námsmenn tileinka sér litgreiningu og að mála eftir fyrirmynd. Farið er í grundvallarhugtök og reglur í litafræði og málun og í lok námskeiðsins er miðað við að nemendur séu færir um að mála lagskipt með mismunandi áhöldum og aðferðum. Þátttakendur þróa sínar eigin hugmyndir og setja þær fram í skissubók.
Þessar myndir voru teknar í kennslustund í málun í vikunni. Þátttakendur lýstu mikilli ánægju með námskeiðið, sumir höfðu áður fengið einhverja tilsögn í myndlist, aðrir minna. En allir voru sammála um að þessar kennslustundir væru gæðastundir, eftir langan vinnudag jafnaðist fátt á við að skapa myndlist í góðra vina hópi. Það eina neikvæða væri að námskeiðinu væri að ljúka!
Billa kennari segir alltaf ánægjulegt að finna áhuga fólks á þessum námskeiðum og sjá hvernig sjálfstraust nemenda aukist stig af stigi eftir því sem líði á þau. Hún segir að námskrá fyrir námskeiðin séu viðurkennd af menntamálaráðuneytinu og gefi framhaldsskólaeiningar. Dæmi sé um að framhaldsskólanemar taki námskeiðin og fá einingarnar metnar í sínu námi í viðkomandi framhaldsskóla.
Á námskeiðinu Fræðsla í formi og lit, sem eins og fyrr segir er 200 klukkustundir, er farið í hugmyndavinnu, þjálfun formskyns, uppbyggingu og samsetningu mismunandi forma í myndfleti. Þessar 200 klukkustundir hafa verið kenndar á haustönn 2018 og núna á vorönn 2019. Farið er í hina ýmsu stíla og stefnur í listum og fjallað um grundvallarhugtök í listasögu, teikningu og málun. Billa og Guðmundur Ármann hafa bæði kennt á námskeiðinu.
Þessar myndir voru teknar í síðustu kennslustundinni í Fræðsla í formi og lit í vikunni fyrir nemendasýninguna, sem eins og fyrr segir verður opnuð á morgun í húsnæði SÍMEY við Þórsstíg. Sýninguna verður hægt að skoða áfram á opnunartíma SÍMEY fram að páskaleyfi. Hér má sjá myndir af nokkrum verkanna.