Nítján starfsmenn íþróttamannvirkja á Akureyri, í Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð og Eyjafjarðarsveit hafa núna á haustönn verið raunfærnimetnir í störfum sínum. Verkefninu er lokið og hafa þáttakendur fengið afhent viðurkenningarskjöl sín. Þetta er í fyrsta skipti sem SÍMEY metur raunfærni starfsfólks íþróttamannvirkja.
Raunfærnimat starfsfólks íþróttamannvirkja á Eyjafjarðarsvæðinu á sér töluvert langan aðdraganda. Árið 2011 vann Starfsmennt fræðslusetur í samstarfi við stéttarfélagið Kjöl og Akureyrarbæ námskrána Þrótt fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja. Í henni var fjallað um samskipti og sjálfstyrkingu starfsmanna íþróttamannvirkja, samskipti við skóla, starfsumhverfi, tölvunotkun, sjálfsvörn, hreinsitækni o.fl.
Sjö árum síðar, árið 2018, fékk SÍMEY styrk úr Fræðslusjóði til þess að hæfnigreina störf í íþróttahúsum og sundlaugum. Í starfshópi vegna þessa verkefnis voru fulltrúar Akureyrarbæjar, íþróttamannvirkja á Eyjafjarðarsvæðinu og Kjalar. Í framhaldinu vann SÍMEY með Starfsmennt að því að endurskoða námskrána Þrótt frá 2011 og útkoman var nýjar námskrár, annars vegar fyrir starfsfólk íþróttahúsa og hins vegar sundlaugarverði. Menntamálastofnun staðfesti námskrárnar í apríl á þessu ári og í framhaldinu voru þær gerðar aðgengilegar á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Það þýðir að allar símenntunarmiðstöðvar geta nú boðið upp á nám sem byggir á þessum vottuðu námskrám.
SÍMEY hlaut einnig styrk úr Fræðslusjóði til þess að móta og setja upp raunfærnimat fyrir starfsmenn íþróttamannvirkja, til þess að meta hæfni þeirra og reynslu á móti nýju námskránum. Raunfærnimatsferlið var í október og nóvember og tóku nítján starfsmenn íþróttamannvirkja þátt, þar af 7 frá Akureyri (fjórir sundlaugarverðir og þrír starfsmenn íþróttahúsa), 3 starfsmenn íþróttamannvirkja í Dalvíkurbyggð, 5 í Fjallabyggð – bæði á Siglufirði og Ólafsfirði og 4 starfsmenn íþróttamannvirkja í Eyjafjarðarsveit.
Grunnstefið í raunfærnimati er það sama hjá starfsfólki íþróttamannvirkja og starfsfólks í öðrum atvinnugreinum; um er að ræða formlegt ferli þar sem lagt er formlegt mat á þekkingu og færni þátttakenda sem þeir hafa aflað sér utan hins hefðbundna skólakerfis; með starfsreynslu, starfs- og frístundanámi, námskeiðum, félagsstörfum og almennri lífsreynslu. Skilyrði fyrir raunfærnimati er að lágmarki 23 ára aldur og þriggja ára starfsreynsla í viðkomandi starfi eða starfsgrein.
Af hálfu SÍMEY hefur á síðustu árum byggst upp mikil reynsla við undirbúning og framkvæmd raunfærnimats í hinum ýmsu atvinnugreinum. Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, segist vera mjög ánægð með hvernig til tókst í raunfærnimati starfsmanna íþróttamannvirkja, þátttakan hafi verið góð og allir lagt sig fram. Útkoman hafi verið eftir því. Í framhaldinu sé horft til þess að bjóða upp á formlegt nám fyrir þessa starfsmenn á grunni hinna nýju námskráa, annars vegar fyrir starfsmenn íþróttahúsa og hins vegar sundlaugarverði.
Þrír matsaðilar voru í raunfærnimatinu; Svanfríður Jónasdóttir, kennari á Dalvík og fyrrv. starfsmaður SÍMEY, Gísli Rúnar Gylfason, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Dalvíkurbyggðar, og Erna Lind Rögnvaldardóttir, forstöðumaður íþróttamiðstöðvar Eyjafjarðarsveitar á Hrafnagili.