Á undanförnu árum hefur SÍMEY tekið þátt í þróunarverkefnum í íslensku sem öðru máli. Fyrsta verkefninu, sem SÍMEY vann með Studieskolen í Kaupmannahöfn og var styrkt af Þróunarsjóði fræðslusjóðs, var ýtt úr vör árið 2020 og fól það í sér uppsetningu á veflægu hæfnimati í íslensku sem öðru máli. Veflægt hæfnimat Studieskolen var þýtt yfir á íslensku en það er hugsað fyrir fullorðna til að meta stöðu sína í öðrum tungumálum en sínu eigin móðurmáli.
Árið 2021 fékk SÍMEY aftur styrk úr Þróunarsjóði fræðslusjóðs til að kynna hæfnimatið fyrir öðrum símenntunarmiðstöðvum og þýða leiðbeiningar og sjálfsmat í prófinu yfir á pólsku. Leiðbeiningar og sjálfsmat var í boði á mörgum tungumálum en pólska var ekki eitt af þeim. Efnt var til kynningarfunda á netinu og síðan var settur punktu yfir i-ið í þessu verkefni með vinnustofu í SÍMEY í júní 2022 þar sem fulltrúar Studieskolen, símenntunarmiðstöðva um allt land og Menntamálastofnunar ræddu evrópska tungumálarammann, hugmyndafræði hans og tengingu við kennslu íslensku sem annars máls. Þar kom fram sú skoðun að í kennslunni bæri að leggja aukna áherslu á að tungumálið nýttist nemendum betur í sínu daglega lífi og starfi.
Með þessu þróunarverkefni lét SÍMEY ekki staðar numið, heldur sótti um og fékk Nordplus styrk vorið 2022 til eins árs til þess að halda áfram að þróa uppbyggingarnámskeið, kennsluaðferðir og námsefni í íslensku í samhengi við evrópska tungumálarammann. Verkefnið bar yfirskriftina Ný nálgun í innleiðingu evrópska tungumálarammans. Áfram var unnið með Studieskolen í Kaupmannahöfn en einnig tóku þátt í verkefninu símenntunarmiðstöðvarnar Mímir-símenntun í Reykjavík og Austurbrú á Austurlandi. Áherslan í þessu þróunarverkefni var á endurmótun á fyrstu tveimur hlutum íslenskukennslunnar, A1 og A2, samkvæmt evrópska tungumálarammanum.
Verkefnið hófst með vinnustofu í Fnjóskadal í október 2022 þar sem verkefnastjórar og íslenskukennarar frá þessum þremur símenntunarmiðstöðvum og Studieskolen báru saman bækur sínar og lögðu mat á stöðu og þarfir nemenda og hvernig unnt væri að bjóða upp á nám/námsefni í íslensku sem nýtist þeim sem best í daglegu lífi og starfi. Einnig var horft til þróunar rafræns kennsluefnis út frá hugmyndafræði evrópska tungumálarammans.
Lokafundur í þessu þróunarverkefni var síðan haldinn í Kaupmannahöfn í júní sl. og hann sóttu m.a. verkefnastjórarnir Kristín Björk Gunnarsdóttir og Sif Jóhannesar Ástudóttir í SÍMEY, sem hafa unnið að öllum framangreindum þróunarverkefnum. Einnig fóru á lokafundinn í Kaupmannahöfn þrír íslenskukennarar í SÍMEY sem hafa tekið þátt í verkefninu, og fulltrúar hinna tveggja símenntunarmiðstöðvanna.
Í þessari ferð, sem var styrkt af Erasmus+, voru tvær flugur slegnar í einu höggi því auk lokafundarins í verkefninu sátu þátttakendurnir frá Íslandi námskeið hjá Studieskolen um ólíkar kennsluaðferðir og nálgun í tungumálakennslu.
Næsta skref í þessari vinnu segja Kristín Björk og Sif felast í úrvinnslu og að miðla til annarra símenntunarmiðstöðva og fleiri þeirri þekkingu sem fengist hefur út úr þróunarverkefninu. Samandregið segja þær að verkefnið feli í sér nýja nálgun í kennslu í íslensku sem öðru máli en hins vegar sé ljóst að enn sem komið er skorti námsefni til að fylgja eftir þessari nýju nálgun í kennslunni.
Sóknaráætlun Norðurlands eystra hefur veitt SÍMEY styrk sem verður varið til þess að miðla áfram þeirri þekkingu sem SÍMEY hefur aflað sér á þessu sviði til þeirra á Norðurlandi eystra sem koma að kennslu í íslensku sem öðru máli á einn eða annan hátt.