Opnar smiðjur á vorönn - opið fyrir umsóknir!

Dæmi um málverk sem nemandi í myndlistasmiðju - málun gerði á námskeiði í vorönn 1918 - samskonar ná…
Dæmi um málverk sem nemandi í myndlistasmiðju - málun gerði á námskeiði í vorönn 1918 - samskonar námskeiði og því sem hefst í febrúar nk.

Eins og jafnan áður býður SÍMEY upp á nám í opnum smiðjum núna á vorönn. Að þessu sinni eru smiðjurnar fjórar; textílsmiðja, myndlistasmiðja – málun, málmsuðusmiðja og hönnunar- og tilraunasmiðja í FabLab og hefjast þær allar í febrúar.

Þessar smiðjur byggja allar á námsskrám sem samþykktar hafa verið af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og er heildarnámstími þeirra allra 80 klukkustundir. Nemendur sem sækja námskeiðin eru hvattir til að kanna möguleika hjá stéttarfélögum sínum og fræðslusjóðum.

Ein framangreindra opinna smiðja, málmsuða, er þegar fullbókuð en ennþá er pláss fyrir nemendur í hinum þremur smiðjunum. Þar sem reynslan er sú að þessar smiðjur eru vinsælar er fólk hvatt til þess að skrá sig sem allra fyrst.

Í myndlistasmiðjunni fer Bryndís Arnardóttir (Billa), sem hefur áratuga reynsla af myndlistakennslu, með nemendur í áhugavert ferðalag og reynslan er sú að útkoman er stórskemmtileg. Hér má sjá nokkur þeirra verka sem nemendur á samskonar námskeiði á vorönn 2018 unnu. Hér eru upplýsingar um myndlistasmiðjuna og hlekkur á umsóknir um námið.

Textílsmiðjan verður kennd í VMA og eru tveir kennarar, Soffía Margrét Hafþórsdóttir fatahönnuður og Kristín Þöll Þórsdóttir klæðskeri. Smiðjan verður byggð upp á fyrirlestrarformi og verklegri vinnu en auk þessa þurfa þátttakendur að halda verkdagbók á meðan á smiðjunni stendur. Fyrsta slíka opna textílsmiðja var á vorönn 2017 og hafa þær verið mjög vel heppnaðar og vinsælar. Hér eru upplýsingar um textílsmiðjuna og hlekkur á umsóknir um námið.

Hönnunar- og tilraunasmiðja í FabLab er kennd í FabLab Akureyri í húsnæði Verkmenntaskólans á Akureyri. Námið er að stórum hluta verklegt en miðað er við að fagbókleg kennsla nemi að lágmarki 13 klukkustundum af 80 klukkustunda heildarnámstíma námsins. Kennarar eru Helga Björg Jónasardóttir, vöruhönnuður, myndlistamaður og kennari, Ólafur Pálmi Guðnason, tölvunarfræðingur og Jón Þór Sigurðsson, margmiðlunarhönnuður. Hér er umfjöllun um hönnunar- og tilraunasmiðju í FabLab á haustönn 2018. Hér eru upplýsingar um þessa hönnunar- og tilraunasmiðju í FabLab og hlekkur á umsóknir um námið.

----

Kristín Björk Gunnarsdóttir verkefnastjóri í SÍMEY veitir frekari upplýsingar um framangreindar smiðjur.