Til margra ára hefur SÍMEY boðið upp á raunfærnimat og hefur miðstöðin að jafnaði raunfærnimetið um fimmtíu manns á ári. Helena Sif Guðmundsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri, segir ástæðu til þess að vekja athygli á þessum möguleika, allt of fáir geri sér grein fyrir hvað í raunfærnimatinu felst og hvað það getur gefið fólki.
„Það er engin spurning að raunfærnimatið gefur fólki mikið, það styrkir það og eykur sjálfstraust þess. Mér finnst að það komi fólki alltaf jafn skemmtilega á óvart hversu vel öll reynsla þess í starfi og daglegu lífi nýtist í niðurstöðum raunfærnimatsins og hversu mjög það getur stytt leið fólks í námi,“ segir Helena Sif.
Reynsla og þekking sem fólk aflar sér í gegnum árin og býr yfir er afar dýrmæt. Fyrir fólk sem hefur verið lengi á vinnumarkaði en kýs að sækja sér formlega menntun og fá staðfesta þekkingu sína og hæfni í viðkomandi starfi er raunfærnimat raunhæfur möguleiki. Ekki aðeins getur það stytt leið fólks mjög að settu marki heldur veitir það því mikið sjálfstraust til þess að takast á við nýjar áskoranir í námi eða varðandi framgang í starfi.
Fræðslusjóður greiðir kostnað við raunfærnimat og því er það þeim þátttakendum sem ekki hafa lokið formlegu námi að kostnaðarlausu. Þau sem hafa lokið formlegu námi geta fengið kostnað vegna raunfærnimats niðurgreiddan hjá stéttarfélögum og/eða starfsmenntunarsjóðum. Til þess að fara í raunfærnimat þarf fólk að vera að lágmarki tuttugu og þriggja ára og hafa að baki þriggja ára staðfesta starfsreynslu í viðkomandi atvinnugrein.
Helena Sif segir að SÍMEY vilji endilega sjá enn fleiri nýta sér þennan kost. SÍMEY bjóði upp á raunfærnimat í mörgum starfsgreinum, til dæmis fyrir fólk sem hefur lengi starfað á leikskólum en hefur hug á leikskólaliðanámi, fólk í umönnunarstörfum sem vill auka þekkingu sína með því að fara í sjúkraliðanám og fólk sem hefur lengi verið í störfum stuðningsfulltrúa eða félagsliða. Þetta eigi líka t.d. við um fólk sem hefur hug á matartæknanámi og fólk sem starfar í íþróttamannvirkjum. Hins vegar annast IÐAN raunfærnimat fyrir fólk sem starfar í iðngreinum.
Alltaf er opið fyrir umsóknir í raunfærnimat í SÍMEY. Umsókn er fyrsta skrefið og síðan er farið í gegnum ákveðið ferli þar sem einn af þáttunum í raunfærnimatinu er matsviðtal sem er boðið upp á að taka á staðnum eða í gegnum fjarfundabúnað. Helena Sif segir að því sé búseta fólks engin fyrirstaða í þessum efnum.
Allar nánari upplýsingar veitir Helena Sif Guðmundsdóttir. Netfangið hennar er helena@simey.is