Óðinn Þór Baldursson er tæplega fertugur, borinn og barnfæddur Hríseyingur. Að grunnskóla loknum starfaði hann við sjávarsíðuna – í fiskvinnslu og á sjó – og hefur verið í sjávarútvegi á einn eða annan hátt allar götur síðan. Hann er búsettur á Akureyri en starfar sem verkstjóri í landvinnslu Hrísey Seafood. Á síðasta ári fór Óðinn Þór í raunfærnimat hjá SÍMEY og innritaði sig í framhaldinu til náms í íslensku, stærðfræði og ensku hjá SÍMEY.
„Ég hef ekki verið í námi síðan í grunnskóla að því undanskildu að ég aflaði mér tólf metra skipstjórnarréttinda í fjarnámi upp úr 2000 og var í kjölfarið um tíma skipstjóri á línubáti. Á síðasta ári fór ég í raunfærnimat hjá SÍMEY eftir að Emil ráðgjafi hjá SÍMEY hafði samband við mig og kynnti þennan möguleika fyrir mér. Ég hafði ekki leitt hugann að þessu en ég ákvað að slá til og sé ekki eftir því. Þetta reyndist í senn skemmtilegt og áhugavert og það kom mér á óvart hversu mikið af hæfni minni og reynslu var metið. Ég hafði ekki leitt hugann að því hversu margt ég hefði gert um dagana. Ég vissi hvað ég gæti og væri fær um að gera en það var gaman að sjá þetta skráð á einn stað,“ segir Óðinn. Eftir raunfærnimatið skráði hann sig á kvöldnámskeið í íslensku, stærðfræði og ensku í SÍMEY. Íslenskunámskeiðinu hefur hann lokið en á þessari önn hefur verið kennd stærðfræði og til stóð að hefja enskunámið á síðari hluta annarinnar. Röskun hefur verið í stærðfræði- og enskunáminu vegna samkomubannsins, á meðan á því stendur eru engar kennslustundir í húsnæði SÍMEY.
„Ég ákvað að byrja á þessum grunnfögum og sjá hvert þau myndu leiða mig. Vissulega var töluvert átak að setjast á skólabekk eftir öll þessi ár en þetta er skemmtilegt og kennararnir eru þolinmóðir og hjálpsamir. Ef allt gengur upp horfi ég til þess að halda áfram, mögulega að fara í Fisktækniskólann eða í aukið skipstjórnarnám,“ segir Óðinn Þór Baldursson.