Raunfærnimatið sprengdi væntingaskalann!

Anna Björk Ívarsdóttir í eldhúsinu í kjötframleiðslufyrirtækinu Norðlenska á Akureyri.
Anna Björk Ívarsdóttir í eldhúsinu í kjötframleiðslufyrirtækinu Norðlenska á Akureyri.

 

Viltu frekari upplýsingar um raunfærnimat - smelltu hér

 

Eftir að hafa starfað sem kokkur og matráður í meira en áratug ákvað Anna Björk Ívarsdóttir á Akureyri að kominn væri tími á að drífa sig í nám og fá kunnáttu sína staðfesta. Hún hafði af því veður að Verkmenntaskólinn á Akureyri færi næsta haust af stað með nýjan hóp í matartækni, sem er nám sem nemendur geta tekið með vinnu, og hún ákvað að stefna á það. En fyrst bókaði hún sig í raunfærnimat í SÍMEY og sér ekki eftir því.

Raunfærnimatið eins og pínu ævintýri
„Júlía Skarphéðinsdóttir, matreiðslumeistari og góð vinkona mín, sem ég hef m.a. aðstoðað við veislur sem hún hefur tekið að sér, hefur lengi nefnt við mig að fara í raunfærnimat og fá reynslu mína metna,  en lengi vel ýtti ég því frá mér. En loks lét ég slag standa núna eftir áramótin, fór í SÍMEY og hitti Kristínu Björk. Ég viðurkenni að ég vissi ekkert út í hvað ég var að fara en upplifunin af raunfærnimatinu var pínu eins og ævintýri. Ég byrjaði á að gera ítarlega ferilskrá með góðri aðstoð Kristínar og síðan tók matsviðtalið við. Það tóku Marína Sigurgeirsdóttir, kennari við matvælabraut VMA, og Anna Rósa Magnúsdóttir, sem starfar í eldhúsi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík. Matsviðtalið fór fram í húsakynnum SÍMEY, þar hittumst við Marína en Anna Rósa var með okkur í myndsamtali. Mér leið mjög vel í viðtalinu og í það heila gekk þetta allt saman miklu betur en ég þorði að vona. Á skalanum 1-10 fór ég inn í þetta ferli með væntingar upp á 4-5 en raunfærnimatið sprengdi væntingaskalann og niðurstaðan var 12! Sannast sagna var ég svolítið leið þegar þessu ferli  var lokið. Raunfærnimatið staðfesti að ég veit miklu meira en ég hélt að ég vissi og það hefur svo sannarlega aukið mér sjálfstraust til þess að halda áfram. Ég fór strax í að bóka mig hjá SÍMEY í bóklegar greinar sem ég þarf að bæta við mig. Stefnan er að byrja í enskunni núna strax í apríl og næsta vetur eru stærðfræði, íslensku og upplýsingatækni á dagskrá.
Niðurstaðan úr raunfærnmatinu kom mér þægilega á óvart, reynsla mín í hinum ýmsu störfum í gegnum tíðina nýtist mér mjög vel og styttir mér leiðina mun meira að því marki að verða matartæknir en ég hafði ímyndað mér. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa haft tækifæri til þess að fara í raunfærnimatið og fá færni mína og kunnáttu skráða og metna. Það skiptir mig miklu máli og gefur mér aukinn kraft og vilja til þess að ljúka þeim bóklegu greinum sem ég þarf að hafa lokið og hella mér síðan í matartækninámið. Ég horfi með jákvæðum augum til þess að sækja mér aukna þekkingu á þessu sviði og kynnast nýju fólki úr ýmsum áttum sem hefur verið að vinna sambærileg störf og geta borið saman bækur við það,“ segir Anna Björk.

Fjölbreyttur starfsferill
Anna Björk Ívarsdóttir er fædd og uppalin á Akureyri. Hún fór hina hefðbundna leið í skóla en lét gott heita að skólaskyldunni lokinni. Fór sextán ára gömul út á vinnumarkaðinn og hefur verið þar meira og minna síðan, í dag er hún 52 ára gömul.

„Árið 1984, rétt áður en ég varð sextán ára, fór ég að vinna í sláturhúsinu á Þórshöfn. Ég bjó í verbúð en þurfti til þess sérstaka undanþágu. Þetta var aðeins byrjunin í sláturhúsvinnunni á Þórshöfn því þar var ég líklega í fimm haust. Ég vann líka í fiski í Grundarfirði, hér á Akureyri og víðar. Þá fór ég út fyrir landsteinana og var aupair í bæði Noregi og Ameríku.“

Fyrsta starf Önnu Bjarkar sem tengist eldhúsi og eldamennsku var aðstoð við framreiðslu „smörrebrauðs“ á Hótel KEA á Akureyri. „Ég var í þessu í nokkra mánuði þegar ég var sautján eða átján ára gömul. Kannski má segja að teningnum hafi verið kastað á KEA því ég fór 1989 í Hússtjórnarskólann í Reykjavík. Þetta var einnar annar nám og ég bjó á heimavist í skólahúsinu. Þegar ég fór í Hússtjórnarskólann hafði ég lengi haft mikinn áhuga á því að sauma en það má segja að áhuginn á eldamennsku hafi fyrir alvöru kviknað í skólanum. Þetta var frábær tími og ég vil segja að þetta ættu allir að prófa enda mikill og góður skóli fyrir lífið.

Það má óhikað segja að ævintýraþráin hafi gripið mig snemma og ég átti mér þann draum að fara til sjós og fyrsta plássið fékk ég nítján ára gömul. Ég var þá að vinna í kjötborðinu í KEA-Hrísalundi og bauðst óvænt pláss til prufu á Súlnafellinu. Ég falaðist eftir fríi úr vinnunni í Hrísalundi til þess að fara í prufutúrinn en fékk ekki. Þá var að hrökkva eða stökkva og ég ákvað að stökkva út í óvissuna, sagði mig frá vinnunni í Hrísalundi og fór á Súlnafellið. Eftir fjóra daga var ég komin með fast pláss. Ég var á Súlnafellinu í um eitt ár en tók þá frí frá sjómennskunni í nokkur ár, fór í sambúð austur á Þórshöfn og vann þar ýmis tilfallandi störf. Árið 1996 fór ég aftur á sjóinn og stundaði sjómennsku í nokkur ár – var á Eyborginni sem var gerð út frá Hrísey og fór á henni m.a. á Flæmska hattinn og á Stakfellinu, sem var gert út frá Þórshöfn, fór ég í tvígang í Smuguna.“

Upp úr sambúðinni á Þórshöfn slitnaði eftir tæp sex ár og Anna flutti aftur til Akureyrar. Var þar þó lítið á á þessum tíma því hún var í löngum túrum til sjós og því lítið heima. En í frítúrunum hundleiddist henni í landi og réð sig því til vinnu á kassa í Byko til þess að hafa eitthvað fyrir stafni. Svo fór að eftir að sjómennskunni lauk fór Anna í fullt starf í Byko og var þar yfir rafmagns-, búsáhalda- og árstíðadeild í um átta ár.

Eftir tímann í Byko hóf Anna störf hjá Brauðgerð Kr. Jónssonar við Hrísalund og hafði umsjón með brauðbúðinni í bakaríinu. Eftir nokkur ár í Brauðgerðinni var komið að næsta kafla. Anna hafði ekki hugleitt að skipta um starf en einn góðan veðurdag hringdi systir hennar í hana, sem þá var hótelstjóri Hótels Glyms í Hvalfirði, og tjáði Önnu að kokkurinn á hótelinu hafi hætt störfum og skyndilega vanti kokk í eldhúsið, hvort ég gæti ekki hugsað mér að gerast kokkur á Hótel Glym. Hugsun mín var fyrst „nei, ég get það ekki“, en eftir frekari pælingar ákvað ég að slá til og var þar kokkur í hálft þriðja ár. Þetta var mjög góður tími og ég lærði helling í eldamennsku og ýmsu er lýtur að því að starfa í eldhúsi. Þetta var á ýmsan hátt eins og sjómennska, ég var í burtu frá fjölskyldunni í tíu til fjórtán daga í senn en var svo heima á Akureyri í fríum. Til lengdar var þetta þreytandi fyrir alla og svo fór að ég ákvað að láta staðar numið og flutti aftur heim. Þá var mér bent á auglýsingu frá Norðlenska um stöðu matráðs í eldhúsinu sem ég sótti um og fékk – og er hér enn um átta árum síðar. Yfirleitt er ég ein með eldhúsið og sé um öll innkaup og eldamennsku en vegna aukinnar sótthreinsunar og ýmslegs sem hefur fylgt Covid faraldrinum hef ég fengið aðstoð á matmálstímum.“

Dagurinn er tekinn snemma. Anna er mætt í eldhúsið í Norðlenska um klukkan hálf sjö á morgnana enda hefja fyrstu starfsmennirnir vinnu um klukkan sex og þeir fá sér fyrstu hressingu dagsins upp úr sjö. Síðan rekur hver kaffitíminn annan og svo tekur hádegismaturinn við. Á mánudögum og miðvikudögum er boðið upp á léttan hádegisverð með súpum og skyri og heimabökuðu brauði og áleggi. Á þriðjudögum og fimmtudögum eldar Anna fjölbreyttan heitan mat í hádeginu. Á föstudögum er styttri vinnudagur og því ekki hádegismatur eins og aðra virka daga en þá er boðið upp á meira bakkelsi með kaffinu.
Vinnudegi Önnu er jafnan lokið um klukkan þrjú á daginn. Hún segist vera afar ánægð með sitt starf og orðar það svo að hún gæti ekki verið heppnari með vinnustaðinn og samstarfsfólkið.

 

Viltu frekari upplýsingar um raunfærnimat - smelltu hér